Andvari - 01.01.1996, Qupperneq 22
20
EINAR ÓLAFSSON
ANDVARI
arferð til Pétursborgar og tók hún þrjá daga. Þegar þangað kom mun
hafa verið liðið hátt í mánuð frá því þeir lögðu af stað til Stokk-
hólms, enda var búið að setja þingið og lá leiðin því áfram til
Moskvu þar sem því var fram haldið eftir setninguna.
Á þinginu var samankominn talsvert breiður hópur, sem átti það
kannski helst sammerkt að sætta sig ekki við stefnu hægri sósíal-
demókratanna og hafa samúð með rússnesku byltingunni, enda urðu
miklar umræður og oft hart deilt. Mikilvægar samþykktir voru gerð-
ar um hina kommúnísku stefnu en einkum var tekist á um tillögur að
upptökuskilyrðum í Alþjóðasambandið, svokallaðar Moskvutesur,
sem Lenín mælti fyrir. Þessi skilyrði knúðu miðjumennina til að taka
afstöðu. Fulltrúar margra vinstri sósíaldemókratískra samtaka vildu
ekki una þeim og á næstu árum skiptust þessi samtök upp á milli
sósíaldemókrata og kommúnista. Hendrik segir þá Brynjólf hafa
greitt atkvæði með tillögu Leníns, en það getur ekki hafa verið nema
svokallað ráðgefandi atkvæði, því að þeir voru ekki fulltrúar neinna
samtaka heldur gestir án ákvarðandi atkvæðisréttar.
Það má nærri geta hvílíka þýðingu þingið hafði fyrir þessa ungu Is-
lendinga, sem höfðu undanfarin ár verið við harla erfið skilyrði að
reyna að átta sig á þróuninni í hreyfingu sósíalista. Allt í einu voru
þeir komnir þar sem allir helstu foringjar vinstri sósíalista rökræddu.
Lenín var þarna atkvæðamestur og hélt fimm ræður auk þess sem
nýju riti hans, Vinstri róttœkni - barnasjúkdómar kommúnismans,
var dreift á þinginu. „Þarna laukst upp fyrir manni allur hugmynda-
auður lenínismans,“ sagði Brynjólfur í samræðum okkar nær 70 ár-
um seinna, „og tók það auðvitað ungling á mínum aldri mikinn tíma
að vinna úr þessu öllu og gera sér grein fyrir pólitískri þýðingu þess.“
Ekki voru þeir þó eingöngu óvirkir áheyrendur á heimsþinginu.
Hendrik segir frá því, að þeir hafi skömmu áður en þeir héldu heim-
leiðis verið kvaddir á fund framkvæmdarstjórnar Kominterns til að
skýra henni frá verkalýðshreyfingunni á íslandi og stéttabaráttunni og
hafi Lenín verið á þeim fundi. Brynjólfur kannaðist ekki við þetta í
viðtölum okkar og kvaðst reyndar nokkuð viss um að hann hefði
aldrei verið á slíkum fundi, en þó gæti hugsast að slíkur fundur hafi
verið meðan hann lá rúmfastur vegna magakveisu. En svo er að sjá
að þeir hafi líka sjálfir borið upp erindi við forystumenn Kominterns.
Árni Snævarr og Valur Ingimundarson segja í bók sinni Liðsmenn
Moskvu frá tveimur bréfum Hendriks, bæði eru þau stíluð í Moskvu,