Andvari - 01.01.1996, Page 36
34
EINAR ÓLAFSSON
ANDVARI
Deilt um baráttuleiðir
Um það leyti sem Kommúnistaflokkurinn var stofnaður fóru stétta-
átök harðnandi. Víða voru kommúnistar í forystu í þessum átökum
og stundum í andstöðu við Alþýðusambandið og forystumenn Al-
þýðuflokksins, svo sem í Vestmannaeyjum og í Nóvuslagnum og
Borðeyrardeilunni. Máttu margir þola fangelsisdóma eftir þessi átök
og var Brynjólfur meðal þeirra sem hlutu dóm eftir Gúttóslaginn 9.
nóvember 1932, fjögurra mánaða fangelsi. Dómurinn var reyndar
gerður skilorðsbundinn eftir að hafin var fjöldabarátta fyrir sakar-
uppgjöf. Auk þessara átaka út af kjaramálum unnu menn sér til
óhelgi að mótmæla nasistaríkinu þýska og til dæmis voru Einar Ol-
geirsson og Brynjólfur dæmdir í 75 króna sekt eftir að hakakrossfáni
var skorinn niður af þýsku skipi haustið 1933.
Eftir stofnun Kommúnistaflokksins var byrjað að reka kommún-
ista úr verkalýðsfélögum. En þar sem kommúnistar höfðu mest áhrif
og meirihlutafylgi í verkalýðsfélögum klauf minnihlutinn sig stund-
um úr og stofnaði ný félög sem fengu aðild að Alþýðusambandinu
og áttu það til að undirbjóða taxta hins félagsins, en þau félög sem
kommúnistar réðu voru rekin úr sambandinu eða fengu ekki aðgang
að þingi þess. Á Alþýðusambandsþinginu 1932 voru kjörbréf fulltrúa
frá verkalýðsfélögunum á Akureyri, Siglufirði og í Vestmannaeyjum
ekki tekin gild og þeir útilokaðir frá þingsetu.
í nóvember 1932 var haldið annað þing Kommúnistaflokks íslands.
Á þinginu var gagnrýnt, að stundum hafi forystuhlutverk flokksins í
hinni daglegu hagsmunabaráttu verið vanmetið og hlutverk sósíal-
demókratanna ekki rétt skilið.21 Að mati þingsins var nauðsynlegt
skilyrði til sigursællar baráttu verkalýðsins að það tækist að einangra
kratabroddana, eins og foringjar Alþýðuflokksins voru oft nefndir,
og skapa trausta samfylkingu kommúnískra, sósíaldemókratískra og
flokkslausra verkamanna. Þingið var sem sagt að taka á mismunandi
áherslum sem komið höfðu fram innan flokksins. Svo er að sjá að
einhverjir þeir, sem sett var ofan í við og kallaðir voru tækifærissinn-
ar, hafi ekki hlýtt því sem þingið ákvað og gert lítið úr ágreiningnum
og var Stefán Pjetursson þar talinn í fararbroddi. Þegar leið á haustið
1933 var mjög hert á baráttunni gegn tækifærisstefnunni og þá var