Andvari - 01.01.1996, Síða 46
44
EINAR ÓLAFSSON
ANDVARI
framfæri, annar vettvangur bauðst ekki. Þegar litið er yfir þann mál-
flutning, sem birtist á vettvangi flokksins, er ljóst að hann nálgast þá
stefnu sem nú hafði verið tekin í Moskvu.31 I stefnumarkandi grein,
sem Brynjólfur skrifaði í Þjóðviljann 22. október 1939, talaði hann
um þýska nasismann sem erkióvininn en minnti líka á að breska auð-
valdið væri sterkasti óvinurinn, en því höfðu kommúnistar alltaf
haldið fram. En stríðið væri „imperíalistísk styrjöld landvinninga-
þyrstra stórvelda,“ og var það í samræmi við þá stefnu sem nú barst
frá Moskvu. Þrem árum seinna, á þriðja þingi Sósíalistaflokksins, eft-
ir að þýski herinn réðst á Sovétríkin, sagði Brynjólfur, að með því
hefði heimsstyrjöldin gerbreytt um eðli og þar með hefðu líka ger-
breyst öll viðhorf og verkefni verkalýðsflokka um allan heim.
Þessir atburðir mögnuðu upp mikið ofstæki gagnvart Sósíalista-
flokknum og þingmenn hinna flokkanna samþykktu ályktun um að
Alþingi væri óvirðing gerð með setu þingmanna Sósíalistaflokksins
þar. Islandsdeild norræna þingmannasambandsins lýsti þá brottræka
úr sambandinu. Og vorið 1940 fluttu Jónas frá Hriflu, Pétur Ottesen
og Stefán Jóhann Stefánsson tillögu á Alþingi sem í raun fól í sér að
félagar í Sósíalistaflokknum, þó þeir væru ekki beinlínis nefndir,
yrðu sviptir öllum trúnaðarstörfum og borgaraleg réttindi þeirra þar
með stórskert. Nokkrir þingmenn komu þó í veg fyrir að tillagan færi
í gegn óbreytt. En í raun var þingmönnum sósíalista haldið algerlega
utan við þingstörfin, öll mál sem þeir fluttu voru svæfð í nefndum og
aðrir þingmenn viku úr salnum þegar þingmenn sósíalista tóku til
máls. Þeir neyttu þá þess ráðs að halda langar ræður og þreyttu þing-
ið svo að það gafst upp á þessari aðferð.
Það má merkilegt heita hversu lítt skaddaður flokkurinn komst út
úr þessum raunum. En að vissu leyti gerðu þessar ofsóknir honum
léttara að komast yfir það rof sem varð á rökréttri þróun samfylking-
arstefnunnar, því að flokkurinn losnaði í rauninni við frumkvæðið.
Eftir að búið var að mynda hinn nýja flokk og samfylkingin hafði
þannig náð mikilvægum áfanga magnaðist andóf forystumanna hinna
flokkanna, Alþýðuflokksins og Framsóknarflokksins, gegn kommún-
istum þannig að áframhaldandi samfylkingarviðleitni við flokkana
sem slíka var tómt mál. Og nú var Alþýðuflokkurinn í fyrsta sinn í
stjórn með Sjálfstæðisflokknum, en aðeins fimm árum áður hafði
hann í fyrsta sinn átt aðild að ríkisstjórn og þá út frá mjög róttækri