Andvari - 01.01.1996, Síða 89
andvari
HINN LANGI OG SKÆRI HLJÓMUR
87
hinnar nýju stefnu þó að þeir hefðu hafið feril sinn í rómantískum anda. Ég
nefni aðeins Henrik Ibsen og August Strindberg en verk þeirra frá þessum
tíma hafa út um heiminn varpað mestum ljóma á bókmenntir Norðurlanda
ef frá eru taldar íslenskar fornbókmenntir og ævintýr H. C. Andersens.
Stríðið um bókmenntakenningar og lífsviðhorf geisaði af fullum krafti
næsta áratuginn og lengur. Brandesi varð ekki vært í Danmörku. Hann
fluttist til Berlínar 1877 og settist ekki að í Danmörku aftur fyrr en 1883, en
kom þó alltaf öðru hverju heim til fyrirlestrahalds á þessum útivistarárum.
IV
Það var inn í andrúmsloft þessa bókmenntalega styrjaldarástands sem
nýstúdentinn Einar Hjörleifsson fluttist haustið 1881 og í Verðandi vorið
eftir drógu þeir félagar að húni merki hinnar nýju stefnu.
Á hvern hátt sver höfundarverk Einars H. Kvarans sig í ætt við raunsæis-
stefnuna hugmyndalega og um listræn vinnubrögð?
Þegar litið er á skáldverk hans í heild sinni má með miklum rétti halda
því fram að þau beri einkenni allra þeirra þriggja skeiða raunsæis sem áður
voru nefnd - realisma, natúralisma og impressionisma.
í ýmsum verka sinna, og á það ekki síst við um nokkrar smásagna hans,
einkum frá fyrri árum, birtist hann sem realisti af gerð Gustave Flauberts.
Hann sýnir okkur mannlífsmyndir, persónur og atvikarás, úr lífi venjulegs
fólks við hvunndagslegustu aðstæður og gætir þess að lita ekki þessar
niyndir eigin boðskap eða tilætlunum. Sem dæmi um sögur þessarar gerðar
nefni ég Vonir (1890), „Þurrkur“ (1905), „Skilnaður" (1906). Þessu listar-
bragði kunni hann fullvel að beita allt til loka ferils síns. Ég nefni sem
dæmi smásöguna „Reykur“ frá árinu 1928.
Allur þorrinn af skáldverkum Einars ber samt það megineinkenni natúr-
alismans að bókmenntir hafi þann tilgang að bæta og lækna mein mannlífs-
ins, gera líf manna fegurra og hamingjuríkara. Auðvitað eru verkin sjálf
gleggstur vitnisburður um þessa afstöðu hans, en henni hefur hann einnig
lýst í ræðum og ritgerðum um list og lífsafstöðu. í frægri ritdeilu sinni við
Sigurð Nordal sagði hann í ritgerðinni „Kristur eða Þór“:
[. . .] mér hefir aldrei komið til hugar að verða sammála þeim mönnum, sem vilja að
sjálfsögðu einangra orðsins list frá lífinu sjálfu. Eg lít svo á, sem listin eigi að vera í
þjónustu sannleikans, eins og höfundarnir sjá hann, og styðja mennina í baráttu
þeirra.
Og í útvarpsávarpi sem hann flutti á 75 ára afmæli sínu 6. des. 1934 og birti
síðar í Morgni var hann enn sömu skoðunar: