Andvari - 01.01.1996, Side 156
154
EIRÍKUR GUÐMUNDSSON
ANDVARI
ég freista þess að stíga yfir þröskuldinn muni ég bara detta“ (110). Skáld-
sagan verður þannig að lokuðum, nánast kæfandi heimi sem kenna má við
einmanalegt fullveldi tungumálsins; völundarhúsi þar sem engin leið liggur
út hvorki fyrir söguhetjuna né lesandann. Niðurstaðan verður þunglyndis-
legt muldur í harðlæstri formgerð; textinn nær hvorki að grípa inn í tilveru
lesandans né breyta afstöðu hans til lífs eða dauða.
V. Hvert á nú að beina heimþrá?
Steinunn Sigurðardóttir: Hjcirtcistaður
í skáldsögu Steinunnar Sigurðardóttur skarast nokkur merkingarsvið
þeirra sagna sem hér eru til umfjöllunar; svið sem kenna má við ferð (Hí-
býli vindanna, Dyrnar þröngu), land (Hraunfólkið) og þrá (Dyrnar þröngu,
Ár bréfberans). Hæst ber svið ferðarinnar því í Hjartastað er sagt frá för
þriggja kvenna frá Reykjavík austur á firði í þeim tilgangi að koma af-
vegaleiddri unglingsstúlku, dóttur söguhetjunnar, á rétta slóð. Návist lands-
ins er sterk, svo ekki sé fastar að orði kveðið. Steinunn skrifar sig frá borg
til sveitar - og snýr þannig upp á mýtuna um flutninginn úr sveitinni á möl-
ina sem lá mörgum skáldsögum eftirstríðsáranna til grundvallar - en líkt og
svo margt annað í þessari sögu er sú skrift tvíbent að því leyti að hún felur
bæði í sér útsýn til lands og bóka. Á sama tíma og landið verður til fyrir
augum lesandans skrifar Steinunn sig á listilegan hátt inn í heim bók-
menntanna, í gegnum Suðursveit Þórbergs Þórðarsonar þar sem steinarnir
tala, með viðkomu í furðuheimi Gyrðis Elíassonar, uns numið er staðar í
vorlandinu sem, líkt og Kristján B. Jónasson bendir á í ritdómi um bókina,
er hvergi til nema í skáldskapnum.12 Hjartastaðurinn er ekki aðeins staður
á landakorti heldur tungumálið sjálft; hér er ferðast austur fyrir kort í land-
fræðilegum og bókmenntalegum skilningi.
Sagan lokast ekki þegar ferðalaginu lýkur í þeirri jarðnesku paradís sem
bíður kvennanna á leiðarenda og er þráfaldlega boðuð í textanum. Þvert á
móti hafnar hún endanlegum túlkunum með því að brjóta sjálfa sig upp
með ótal sögubrotum sem eru táknræn fyrir leit söguhetjunnar að réttu
faðerni og um leið eigin sjálfi. Þrátt fyrir það er leit Hörpu einmitt leit að
endanlegri sögu sem er sagan um hennar eigin tilurð: harmsaga hennar eig-
in ævi sem hún er stöðugt að semja eða finna titla á: „LOKUÐ SUND væri
auðvitað fínn titill á sögu mína sem ég og enginn ætla aldrei að skrifa, og
besti titillinn á líf mitt sem hefði aldrei átt að vera lifað“ (274). Það er hins
vegar einn af ótal göldrum þessarar skáldsögu að þrátt fyrir hamskipti
Hörpu í lok sögunnar renna þráin og innri maður ekki saman heldur