Andvari - 01.01.1996, Síða 157
ANDVARI
OFBELDI TÍMANS
155
kvikna nýjar þrár um leið og henni tekst að koma sjálfri sér heim og sam-
an: sá sem nær takmarki sínu kemst um leið lengra en sem því nemur, eins
og Nietzsche orðar það í Handan góðs og ills.u Sjálfið er ætíð ófullgert á
sama hátt og ævisaga Hörpu og jafnvel ferðasaga þremenninganna; á ein-
um stað segist Harpa þurfa að skrifa bækur til að gera ferðalaginu skil (sjá
351). Þannig undirstrikar sagan að leit einstaklingsins að sjálfsmynd er
endalaust verkefni, að manneskjan finnur í raun aldrei sinn hellisskúta ut-
an við tímann eða draumaland; fundinum er stöðugt skotið á frest líkt og
vitneskju Hörpu um rétt faðerni, sem verður ekki Ijóst fyrr en undir lok
frásagnarinnar þegar enn ein sjálfsævisagan skýtur upp kollinum: „[. . .]
það er ennþá til saga í kringum það hver ég er“ (362). Sagan kennir okkur
að sjálfsþekkingin er aldrei endanleg, sjálfið er tilvonandi eða til bráða-
birgða og hlýtur skilgreiningu sína af þeim viðföngum sem þráin beinist að
í það og það skiptið. Hið hviklynda eðli þrárinnar, sem Harpa er umfram
allt fulltrúi fyrir, vinnur gegn endanlegri sjálfsskilgreiningu. Hjartastaður-
inn verður aðeins enn einn áfangastaðurinn í því stórkostlega samspili
sjálfs og heims sem þessi saga hefur að geyma.
Hjartastaður er fyrst og síðast samtímasaga. Meginviðfangsefni hennar
eru ekki aðeins tekin úr nýlegri umræðu um aukinn fíkniefnavanda ungs
fólks heldur einnig um leit að réttu faðerni, sem nokkuð hefur verið rædd í
fjölmiðlum að undanförnu; í ljósi þess síðarnefnda má segja að sagan verði
íronískt tilbrigði við fyrrgreinda kenningu Þórunnar Björnsdóttur í Hraun-
fólkinu: „Fólk sem missir niður ætt sína nær sér aldrei upp“; speki sem
framvindan í sögu Björns grefur undan. Steinunni tekst að sameina þessi
tvö svið í frásögn af tveggja daga ferð þriggja kvenna austur á firði án þess
að úr verði hefðbundin vandamálasaga, leiðindunum merkt, heldur skáld-
verk sem býr yfir fágætu innsæi, eins og ritdómarar myndu orða það. Skipt-
ir þar ekki minnstu máli sýn hennar á samtímann sem er í senn íronísk og
alvöruþrungin; sýn sem nýtur sín í texta sem er hvort tveggja raunsær og
módernískur. Líkt og James Joyce tókst í stórvirki sínu Ulysses að fanga
samtímann í ólgandi vitundarfljóti söguhetjanna á dagsferð þeirra um
Dublin tekst Steinunni nú að miðla tilgangsleysi og persónulegu óþoli í
gegnum vitund sjúkraliðans Hörpu Eirar í nokkurs konar tveggja daga Ul-
ysses. Það er þó fyrst og fremst frásagnarhátturinn sem skapar hugrenn-
ingatengsl milli þessara annars ólíku verka. Með tíðum en þó hnökralaus-
um tengingum á milli nútíðar og fortíðar þjappar Steinunn ævisögu Hörpu
inn í frásögn af stuttu ferðalagi sem á sér stað í veruleikanum en þó um-
fram allt í vitund Hörpu sjálfrar.
Hinn taktvissi og ljóðræni stíll hefur þessa sögu yfir aðrar skáldsögur frá
síðasta ári; við verðum líklega að fara fimm ár aftur í tímann og alla leið
upp í háloftin þar sem Svanur Guðbergs Bergssonar flýgur þöndum vængj-