Íslenzk tunga - 01.01.1963, Blaðsíða 134
130 ÚR FÓRUM ORÐABÓKARINNAR III
þessu sama. Kk-orðið heigull er einnig haft um löng, fölleit strá, sem
vaxa inn úr torfþaki eða inn með gluggakistum; hann hangir þarna
eins og heigull í hesthúsvegg er sagt um vesældarlegan mann. Þá er
og heigul-stör heiti á linkulegri starartegund, og er sýnilegt, að þessi
merking orðsins getur ekki verið runnin frá huglægum eigindum
eins og kjarkleysi, en hlýtur að vísa til eldra merkingarsviðs orð-
stofnsins, þ. e. ‘einhvers, sem er linkulegt og hangir niður’. Svipuðu
máli gegn'r um orðtakið nú œtlar heigull að dangast, þótt ekki sé
fullvíst, hvort heigull á þar frekar við linkulega jurt eða vesældarlega
skepnu.
So. heigla bendir í þessa sömu átt. Talað er um að heigla upp
skepnum, þ. e. ‘fóðra þær illa í uppvexti’; þessu var heiglað upp á
litlu', uppheigluð trunta ‘vanfóðrað hross’. Þessari sögn er stundum
blandað saman við so. hygla e-m, en á ekkert skylt við hana. Hún
er allgömul í málinu, sbr. að Steinunn Finnsdóttir talar um „að heigla
upp Lóðins knör“ (í Hyndlurímum, 17. öld). Hún notar einnig orða-
sambandið að heiglast við ‘hengslast við, vinna linkulega að e-u’, og
kemur það vel heim við Jón frá Grunnavík, sem þýðir so. heiglast
‘silast, fara sér mj ög hægt’. í mæltu nútímamáli er líka sagt að heigl-
ast niður ‘sligast af máttleysi’ og talað um, að lappirnar heiglist
undir skepnum og nagli heiglist úl af, þ. e. ‘bogni’. Svo virðist, sem
einnig hafi verið til kvk-orðið heigla ‘linka, hnig’ e. þ. u. 1., sbr.
no. heiglustrá ‘vesældarlegt strá’ og lo. heiglubjartur um veður, „eins-
konar millistig milli upprofs og kollheiðs veðurs, gat verið bakkar
og kafald í kring.“ Loks má svo geta þess, að í orðasafni einu frá
síðustu öld (Lbs. 806 8vo) stendur svo: „heigull = það lint er,“ og
mun sú þýðing ekki fara fjarri hinum almenna merkingarkjarna orð-
stofnsins.
En hvað má þá ætla um uppruna og ætterni þessa orðstofns? Jón
frá Grunnavík telur, að kk-orðið heigull sé leitt af haugur og eigi
því að rita það með ey. En ekki er það sennilegt, hvorki frá merk-
ingarfræði- né hljóðfarslegu sjónarmiði. Heigull kemur að vísu ekki
fyrir í fornu máli, svo að ekki er fullvíst um upphaflegt stofnsérhljóð
þess. Viðskeytið -ul- bendir þó eindregið á ei. Líklegast þykir mér,