Tímarit Máls og menningar - 01.09.1988, Qupperneq 63
Aldrei gerði Kristur sálu Þórelfi, vorri móður . . .
í þessari nöktu angist finnur Þormóður kolbrúnarskáld konung sinn,
sinn föður, sitt átrúnaðargoð, þann sem átti að tryggja ódauðleika hans
sjálfs. Orð skáldsins missa merkingu sína:
Styttu nú stundir konúngi þínum, skáld, segir Olafur Haraldsson, og flyt
hér gerplu þína undir hörginum í nótt.
Skáldið svarar og nokkuð dræmt: Nú kem eg eigi ieingur fyrir mig því
kvæði, segir hann, og stendur upp seinlega, og haltrar á brott við lurk sinn,
og er horfinn bak hörginum.
Þá var túngl geingið undir og felur nóttin dal og hól að Stiklarstöðum, og
svo hinn síðfrjóva hegg. (493)"
V
Nú er komið að því að virða fyrir sér það sem komið hefur í ljós eftir að
rakið hefur verið úr Gerpluvefnum. Þrisvar hafa þræðirnir mæst á sama
staðnum - í óttanunr, ótta Þorgeirs hjá ekkjunni í Normandí, ótta Þor-
móðs hjá Kolbrúnu á Grænlandi, ótta Olafs Haraldssonar nóttina fyrir
orrustuna á Stiklarstöðum. Er ótti þessara manna sá sami? Hvað óttast
þeir? Hvers vegna bregðast þeir allir eins við ótta sínum?
Búlgarsk/franski sálgreinandinn Julia Kristeva hefur skrifað bók um
Vald hins óhugnanlega'2, þar sem hún lýsir því hvernig hugmyndin um
heimsendi á djúpan samhljóm í sálarlífi okkar allra. Hún talar um fyrstu
mánuðina í lífi barnsins, þegar það veit að það er aðskilið frá móðurinni, en
er ekki orðið til sem einstaklingur.
Tiifinningar þessa tímabils eru kaotískar, einkennast af upplausn, það
eru engin mörk orðin til, aðeins hamslausar, mótsagnakenndar tilfinningar;
minningin um algleymið, þráin eftir því og jafnframt martröðin sem barnið
kastast inn í, óttinn við að leysast upp, vera gleyptur, sogast niður í tómið.
Hinn djúpstæði tvískinnungur þessa tímabils, loforðið og hótunin, er
óbærilegur og barnið getur ekki losnað úr þessu ástandi fyrr en þriðji aðil-
inn fleygar samband þess við móðurina. Þannig fæðist sjálf mannsins með
því að hann hafnar ást móðurinnar af hryllingi.
Þennan frumstæða ótta og viðbjóð má sjá í Gerplu; í húsi ekkjunnar í
Normandí, sem er með barn á brjósti, liggur heljarmikil gylta með grísi á
spenum. Augu Þorgeirs renna frá svíninu til konunnar og fyrri myndin
rennur yfir þá seinni. Þegar Þormóður vaknar af svefni sínum hjá Kol-
brúnu á Grænlandi sér hann „ferlíki nokkurt við hlið sér meira og þrútnara
en eingi önnur skepna sú er þó hefur náð konu líki“ (358).
Hetjuhugsjónin, karlmennskan, dýrkun valdsins er svar eða flótti frá
þessum viðbjóði, þessum ótta við „hið kvenlega", sem er eins og hljóm-
botn í bókinni. Kristeva segir:
317