Tímarit Máls og menningar - 01.09.1988, Page 90
Tímarit Máls og menningar
fangsefnið er í sjálfu sér ekki afhjúpað líkt og í hefðbundnum textum held-
ur er sem það hringsnúist fyrir augum lesanda. Myndsviðið hefur og öðlast
nýtt gildi, hlotið þá stöðu sem fléttan hafði áður. Mörg hefðbundin verk
búa að vísu yfir ríkulegu myndmáli, líkingum og vísunum. Notkun þess er
þó jafnan takmörkunum háð. Ekki má vera of mikil fjarlægð á milli mynd-
liðar og kenniliðar, listbragðsins og hins sögulega samhengis. Tilfinninga-
leg eða rökleg nánd verður að ríkja til að samhengið leysist ekki upp og þar
með „trúverðugleiki“ textans. Nándin eða þanþolið ræðst af sögulegum
aðstæðum, venjum og samþykktum er setja skynsamlegri orðræðu hvers
tíma skorður.
Þróunin til myndhverfðrar formgerðar er augljós sé horft til íslenskrar
sagnagerðar á fyrstu áratugum þessarar aldar. Hana má til dæmis merkja af
eftirtöldum sögum: Sælir eru einfaldir (1920), Vefarinn mikli frá Kasmír
(1927), Dauðinn á þriðju hæð (1935), Aðventa (1937), íslenskur aðall (1938).
Öll fela þessi verk í sér uppreisn gegn frásagnarhefð - mynd varð sögu yfir-
sterkari - uppreisn sem enn er ekki lokið og birtist glöggt í skáldsögum
síðustu ára.
Myndhvörf og nafnskipti
Rússneski málvísindamaðurinn Roman Jakobson hefur sýnt fram á að
merkingarhættir orðræðna séu tveir: myndhvörf og nafnskipti9. Forsenda
beggja felst að hans dómi í skipulags- eða röðunarreglum tungumálsins,
vali og tengingu. Tenginguna skýrir hann svo að sérhvert tákn sé samsett
úr öðrum og/eða komi aðeins fyrir í venslum við önnur tákn. Máleining-
arnar séu í senn mengi smærri málfyrirbæra og hlutar flóknari heilda. Stig-
veldi táknanna geti því orðið býsna flókið þótt það sé ævinlega bundið ná-
lægðarvenslum, málreglum um tengingu einstakra eininga. Þær ákveði þá
möguleika, takmarki þá úrkosti, sem völ sé á hverju sinni. Að tengja saman
og setja í samhengi eru að mati Jakobsons sama athöfn, séð frá tveimur
sjónarhornum. Jafnframt bendir hann á að frelsi málnotandans aukist um
leið og máleiningarnar stækki: fónem, morfem, orð, setning, málsgrein.
Valið felur í sér annarskonar röðun, telur Jakobson. Orð er valið úr safni
orða, svipaðrar merkingar, orða sem komið gætu hvert í annars stað. Eigi
boð að lýsa konu á göngu geti valið staðið á milli orðanna: kona, dama,
frú, fljóð. Síðan er sögn valin úr öðru safni orða, t.d. ganga, trítla, arka,
labba. Að því búnu er sögn og nafnorði skipar saman í málsgrein. Valið er
ævinlega háð líkindum eða mismun. Jafngildu og þó að nokkru frábrugðnu
orði er skipað í stað annars orðs. Val og umskipti eru því tvær hliðar á
sömu athöfn. I ljósi þessa hélt Jakobson því fram að orðræðu gæti undið
fram á tvo vegu: eitt leiddi af öðru vegna líkingar eða samhengis, m.ö.o.
344