Skírnir - 01.09.1987, Page 36
242 JÓNAS KRISTJÁNSSON SKÍRNIR
manna á heimildargildi fornra sagna, ekki aðeins Landnámu heldur
og Islendingasagna.
Ymsir fræðimenn hafa leitað evrópskra heimilda eða fyrirmynda
sagnanna, ýmist í trúarlegum eða veraldlegum ritum, og ýmist á
efni sagnanna eða á byggingu þeirra og samsetningu (Povl Rubov,
Hermann Pálsson, Bjarni Einarsson, Lars Lönnroth, Carol
Clover, Régis Boyer o.fl.). Síðan hafa sögurnar áhrif hver á aðra, og
ganga sumir fræðimenn langt í því að rekja áhrif frá eldri sögum á
hinar yngri (Rolf Heller, Bjarni Einarsson). Sumir leitafyrirmynda
að mannlýsingum og atburðum sagnanna í samtíð höfunda á 13.
öld (Barði Guðmundsson í meira lagi). Og stundum hafa menn
reynt að sökkva sér djúpt niður í sögurnar, setja sig í spor hinna
fornu söguritara og samtíðarmanna þeirra til að skilja þann forna
sannleika er í sögunum býr- sem á þá að vera eitthvað annað en það
sem við köllum sannleika nú á dögum, sbr. ritið Mirsagi (Heimur
íslendingasagna) eftir M.I. Steblin-Kamenskij.
Svona er þá viðhorf fræðimanna til íslendingasagna, en hvað líð-
ur almenningi í landinu, hvernig lítur hann á sínar ástkæru fornsög-
ur? Eg hygg að viðhorf almennings hafi allt frá fyrstu tíð verið
mjög svipað: Allir aðrir en hinir römmustu raunsæismenn hafa
trúað því sem í sögunum stóð, jafnvel nokkuð út fyrir endimörk
heilbrigðar skynsemi. Bjarni á Leiti í skáldsögu Jóns Thoroddsens
er réttur arfi Gísla biskups Oddssonar, nema hvað hann mælir
stærð Grettis á þverveginn: „Það var mikið, hvað sá maður orkaði,
enda hefur sannfróður maður og sannorður sagt mér, að Grettir
hafi verið þrjár álnir danskar og þrjú kvartil um herðarnar."12
Móðurfaðir minn sem ég segi nánar frá hér á eftir lagði ekki að fullu
trúnað á afl Grettis og rengdi algerlega frásagnirnar af Glámi og af
tröllunum í Bárðardal, en ella trúði hann íslendingasögunum í
lengstu lög. Og faðir minn, sem var mjög raunsær maður og öfga-
laus, sagði einhverju sinni þegar talað var um Njálsbrennu: „Alltaf
hefur mér fundist undarlegt að Skarphéðinn skyldi ekki hlaupa út
úr eldinum og reyna að minnsta kosti að hafa mann fyrir sig.“
Það má nærri geta að slíku fólki líði ekki vel þegar svokallaðir
fræðimenn eða vísindamenn keppast við að ónýta hinar helgu ritn-
ingar. Og loks gerðist það fyrir nokkrum árum að roskin bónda-
kona, Kristín Geirsdóttir í Hringveri á Tjörnesi, fékk ekki lengur