Skírnir - 01.09.1987, Blaðsíða 38
244
JÓNAS KRISTJÁNSSON
SKIRNIR
eftir andiát biskups, og þurfti engan fornleifafund til að sanna frá-
sögn hennar — þótt það væri að vísu ekki amalegt að kistan skyldi
finnast.
2. íslendmgasögur og Sturlungasögur. Með nokkrum fyrirvara
er heimilt að líta á allar íslenskar sögur í samhengi, enda er þar
margt á eina bókina lært: Tungumálið er hið sama, þótt íslenskt
ritmál breytist að vísu ofurlítið frá 12. til 14. aldar. Sögusviðið er
eitt, íslenskar byggðir til sjávar og sveita. Ættir kunnu menn vel að
rekja langt aftur í tímann, og það tengir sögurnar eina við aðra.
Þannig var Snorri Sturluson kominn út af Agli Skallagrímssyni, og
var þeim það báðum vel kunnugt: „Snorri frændi vor,“ mælti Egill
við nafna sinn Halldórsson sem hann birtist í draumi. Ekki var
lengra á milli sögualdar og ritaldar en svo að Guðrún Osvífursdótt-
ir var langamma Ara fróða.
En í sumum greinum er nokkur munur á Sturlungasögum og Is-
lendingasögum, það er að segja á samtíðarsögum og fortíðarsög-
um. Þetta er efni sem þarfnast nánari rannsóknar, og mér til ánægju
veit ég að ungt fræðafólk er nú að fást við það. Eg skal í bili skýra
mál mitt með nokkrum dæmum:
a) í Sturlungasögum er mikið sagt frá vopnaskiptum manna,
enda mikið um róstur og vígaferli á Sturlungaöld. Hið forna, og að
mörgu leyti ágæta þjóðskipulag, sem staðið hafði í þrjár aldir, var
nú að ganga úr skorðum. Völdin höfðu safnast á hendur fárra höfð-
ingja sem drógu saman heri úr heilum héruðum og háðu fjölmenn-
ar orrustur. En yfirleitt var mannfall fremur lítið, vopn víkinganna
voru orðin bitlaus og deig og oft gekk mönnum býsna erfiðlega að
murka lífið hver úr öðrum. En í íslendingasögunum er öðru máli
að gegna. Þar vaða kapparnir í gegnum fylkingar fjandmanna, eins
og Egill Skallagrímsson í orrustunni á Vínheiði, eða berjast við
margmenni og fella menn unnvörpum, eins og Gunnar og Kári í
Njálu. Þarna sem endranær hljóta samtíðarsögur að vera nær því
rétta. Munnmæli hafa verið ýkjum blandin eftir tveggja til þriggja
alda selflutning, og ef eitthvað þótti á skorta mikilleikann gátu rit-
höfundar bætt úr því er þeir færðu sögurnar í letur.
b) íslendingar hafa alltaf verið ákaflega hjátrúarfullir, og í Sturl-
ungasögunum er mikið um spádrauma og allskyns fyrirboða fyrir
mannvígum og öðrum stórtíðindum. Þó eru takmörk fyrir því