Skírnir - 01.09.1987, Page 43
SKÍRNIR
SANNFRÆÐI FORNSAGNANNA
249
8. Sturlubók Landnámu. Við höfum eina ágæta forna sönnun
fyrir því að Islendingasögur hafi verið metnar sem trúanlegar
heimildir. í svokallaðri Sturlubók, Landnámabók Sturlu Þórðar-
sonar, eru endursagðir kaflar úr nokkrum íslendingasögum til fyll-
ingar við frásagnir eldri Landnámu eða í staðinn fyrir þær. Má þar
til nefna kafla úr Eglu, Eyrbyggju, Vatnsdælu og Hrómundarþætti
halta. Sturla var einn allra fremsti sagnaritari íslands, og Land-
námabók hans var þáttur í allsherjarsögu þjóðarinnar sem hann
vildi gera úr garði eða eiga hlut að. Hann hefði fráleitt notað þessar
sögur — og aðrar í minna mæli - ef hann hefði ekki talið þær full-
gildar sögulegar heimildir.
9. Vitnisburðir um munnmælasagmr. I fornum ritum er á ýms-
um stöðum getið um það að menn hafi sagt sögur til skemmtunar
eða fróðleiks. En þá er nær alltaf um að ræða það sem við mundum
nú kalla fornaldarsögur, svo sem sögurnar í Reykhólabrúðkaupinu
1119 eða Huldarsögu - „tröllkonusöguna“ sem Sturla Þórðarson
sagði Magnúsi konungi lagabæti og Ingilborgu drottningu, svo
sem lýst er í Sturluþætti. Stundum er þess líka getið að menn segi
frá samtíma viðburðum. I Hungurvöku er því lýst þegar Magnús
biskup Einarsson kom frá Noregi til Alþingis 1135 og gekk „út á
hlaðið fyrir kirkju og sagði þá öllum mönnum þau tíðindi er gjörst
höfðu í Noregi meðan hann var utan, og þótti öllum mikils um vert
málsnilld hans og skörungsskap".19 Aðeins á einum stað er þess
getið að sögð hafi verið íslendingasaga, en það er í niðurlagi Drop-
laugarsonasögu; þar er nefndur Þorvaldur Ingjaldsson „er sagði
sögu þessa“. Villa er í ættartölu Þorvalds, svo að ekki er auðvelt að
sjá hvenær hann var uppi, en gott er þó að hafa þennan vitnisburð
til að bauna á þá sem halda að sögurnar séu tómur skrifborðs-
skáldskapur.
10. Sögubrigði. I íslendingasögum er þess stundum getið að
tvennum sögum fari af hinum og þessum atburðum: „Sumir segja
svo frá . . . en aðrir telja“ o. s. frv. Fljótt á litið virðist þetta sanna
að þá sé stuðst við munnmælasagnir, og verður ekki fyrir synjað að
svo muni stundum vera; en oft eru þetta eintóm látalæti, uppi höfð
til að telja lesendum trú um að höfundur sýni fræðilega viðleitni
einmitt þegar hann krítar liðugt. Mikið er um slík sögubrigði í