Skírnir - 01.09.1987, Blaðsíða 44
250 JÓNAS KRISTJÁNSSON SKÍRNIR
Reykdælu, og vilja sumir fræðimenn taka mark á því, telja að þar
hafi alþýðusagnir klofnað í afbrigði. En Björn Sigfússon trúir þessu
varlega. Hann segir í formála útgáfu sinnar:
Höf. hefur ekki verið sá einfeldningur, að hann væri í bindindi um að búa
slíkt til sjálfur, en tryði því öllu, þegar aðrir bjuggu það til banda honum.20
11. Sama efni í tveimur sögum. Sjaldan er unnt að koma við
samanburði milli tveggja Islendingasagna, því að svo virðist sem
ritarar þeirra forðist að segja frá því sem áður hafði verið fært í
letur.21 Svo er til dæmis um Eyrbyggju og Laxdælu. Annar höfund-
ur þekkir rit hins, hvor sagan sem eldri er - það hefur lengi verið
ágreiningsefni fræðimanna. Einstöku sinnum virðist þó mega
þreifa á því að tveir menn skrásetji sagnir án þess að vita hvor af
öðrum - eða meti sínar eigin sagnir meira, treysti þeim betur en
hinum sem áður voru færðar í letur. Þetta veitir mikla vitneskju um
gerð þeirra munnmælasagna sem söguritarar studdust við. Væri
þörf að rannsaka slík dæmi í samhengi.
í Vatnsdælasögu er dálítil frásögn um Finnboga ramma Ásbjarn-
arson, og síðar er ritað um sömu atburði í sögu þeirri sem kennd er
við Finnboga. Jóhannes Halldórsson, sem bjó Finnbogasögu til
prentunar, hallast að því að í hvorri sögu um sig sé farið eftir sjálf-
stæðum munnmælasögnum og hafnar þeirri tilgátu „að Vatnsdæla
ein sé heimild höfundar Finnboga sögu um þetta efni. I því felst þó
ekki, að hann hafi enga vitneskju haft um, að skrifuð hafi verið saga
um Vatnsdæli, og ekki verður fyrir það synjað, að sú Vatnsdæla
saga hafi að einhverju leyti mótað sögu hans.“22 Það gerir og
samanburð þessara sagna gagnsminni fyrir vora rannsókn að Finn-
bogasaga er mjög ýkjufull og upphefur söguhetju sína.
I íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar er allmikið sagt frá Aroni
Hjörleifssyni, og síðar var rituð sjálfstæð saga Arons. Hún er
venjulega prentuð í Sturlungu-útgáfum, en er þó ekki varðveitt í
handritum hennar, enda er hún vafalaust yngri en Sturlungu-
safnið, talin rituð undir miðja 14. öld. Fróðlegt er að bera þessar
frásagnir saman. Jón Jóhannesson segir: