Skírnir - 01.09.1987, Side 58
264 JÓNAS KRISTJÁNSSON SKÍRNIR
norskur) og sagt að hann hafi verið „austur í Lóni“. Ari segir að
Hrafn Hængsson hafi tekið lögsögu „því nær“ er Island var albyggt
orðið, „sex tegum vetra eftir dráp Eadmundar konungs“, það er að
segja árið 930. Sama útkoma fæst með því að reikna tímaskeið lög-
sögumanna aftur á bak. Hinsvegar segir Ari aðeins að Ulfljótur hafi
komið með lögin „þá er Island var víða byggt orðið", og sýnir það
tvennt: (1) Hann gerir ráð fyrir að Úlfljótur hafi flutt lögin út og
Alþingi verið sett allmörgum árum fyrir 930. (2) Hann veit ekki
nákvæmlega hvenær það gerðist og þá ekki heldur hve mörg ár Úlf-
ljótur hafði lögsögu, en þau hafa verið þó nokkuð mörg.28
Þá segir Ari frá tveimur viðburðum sem gerðust á lögsögu-
mannsárum Þórarins Ragabróður, það er að segja 950—969: setn-
ingu sumarauka og skiptingu landsins í fjórðunga. Ekki virðist Ari
vita nákvæmlega hvenær þetta gerðist, en það hefur gerst tæplega
hálfri annarri öld fyrir skrásetningu.
Því næst er sagt frá fundi og byggingu Grænlands, og nú getur
Ari tímasett nokkuð nákvæmlega: „fjórtán vetrum eða fimmtán
fyrr en kristni kvæmi hér á Island", það er að segja 985 eða 986, -
enda hafði hann vitneskjuna frá Þorkeli föðurbróður sínum, en
honum sagði á Grænlandi sá maður „er sjálfur fylgdi Eiríki hinum
rauða út“. Þetta hefur gerst um 120 árum fyrir skrásetningu.
En hvernig eru þá frásagnir Ara? Hvergi mjög langar né ítarleg-
ar, enda liggur það í eðli verks hans, svo stutt og gagnort sem það
er. En ljóst er að þá ræður Ari yfir nákvæmri þekkingu þegar kom-
ið er að sumarauka Þorsteins surts: hann segir frá merkilegum
draumi Þorsteins sem Osvífur réð, langa-langafi Ara sjálfs. Itarleg-
ust er frásögn Ara af kristnitökunni árið 1000. Þann atburð sagði
honum fóstri hans Teitur Isleifsson, en helsti frömuður kristni-
tökunnar var Gissur hvíti, föðurfaðir Teits. Teitur er í Hungur-
vöku talinn annar í röðinni sona ísleifs biskups, og má giska á að
hann hafi fæðst um 1045. Hann hefur því haft sagnir af kristnitök-
unni frá þeim mönnum sem sjálfir voru þar við staddir.
Víkjum þá að næstu vitnisberum mínum, Jóni Egilssyni og Birni
á Skarðsá. Áður er lýst hversu séra Jón reynir að brúa bilið til hinna
fornu sagnarita með frásögnum sínum af Jóni biskupi Gerrekssyni.
Þeir atburðir máttu vera mönnum einkar minnisstæðir líkt og
mannvíg sögualdar höfundum fornsagnanna. En hinir næstu Skál-