Skírnir - 01.09.1987, Page 85
KRISTJÁN ÁRNASON
Arfur Hegels
Svo SEM FRAM kom í grein ofanritaðs „Mótsögn og miðlun“ í Skírni
1986 einkennir það ekki sízt stöðu Georgs Wilhelms Friedrichs
Hegel (1770-1831) meðal heimspekinga að hann virðist hafa litið á
eigin heimspekikerfi sem einhvers konar lokaniðurstöðu allrar
heimspeki. Sjónarmið fyrri hugsuða sá hann þá sem ákveðna
áfanga á leið heimspekinnar til þessarar lokaniðurstöðu og væru
þau því í senn yfirunnin og geymd (aufgehoben) í kerfi hans, þar
sem allar andstæður yrðu endanlega sættar og skildar sem nauð-
synlegir þættir heildarinnar. Kerfi Hegels hlaut því að ná hámarki
í heimspekilegri könnun á sögu heimspekinnar sjálfrar, og það er
ekki laust við, að Hegel setji sig í stellingar Drottins almáttugs á
sjöunda degi sköpunarinnar, er hann leit um öxl til þess er gert
hafði verið og þótti það harla gott. Nú eftir hálfa aðra öld frá dauða
Hegels mætti spyrja, hvort saga heimspekinnar eftir hans dag hljóti
ekki að hafa afsannað þennan skilning hans á stöðu sinni eða hvort
hann megi á vissan hátt teljast síðasti heimspekingurinn, þar eð
hann hafi síðastur manna fellt veruleikann inn í rökrænt og sam-
hangandi heildarkerfi, en eftirmenn hans fremur séð hann í molum
og tekið mið af öðrum sjónarmiðum en heimspekilegum.
Hitt er svo annað mál, að í heimspeki Hegels sjálfs er ákveðið
hreyfiafl, sem hlýtur að sprengja allar hugmyndir um staðnaða
lokaniðurstöðu. Á ég þar við sjálfa hina díalektísku eða tvísýnu að-
ferð hans, sem felur það í sér, að hvert og eitt sjónarmið eða afstaða
hljóti að kalla fram andstæðu sína og þær aftur að leita sameiningar
í einhverju þriðja. Þannig ætti og kerfi Hegels að eiga sína and-
stæðu eða mótsögn (negation), ef það er sjálfu sér samkvæmt. Og
vissulega má sjá margt í heimspeki Hegels sem beinlínis kallar á
slíkt (og hefur gert það), því fremur en að vera miðlunarheimspeki
sem þræðir bil tveggja andstæðra grundvallarsjónarmiða, líkt og