Skírnir - 01.09.1987, Blaðsíða 86
292
KRISTJÁN ÁRNASON
SKÍRNIR
segja mætti um heimspeki Aristótelesar eða Kants, þá virðist heim-
speki Hegels að vissu leyti öfgakennd og hallast mjög á annan
veginn, þar sem um grundvallarandstæður heimspekinnar er að
ræða. Það er því ekki að undra, að kerfi Hegels hafi í rás tímans
kallað fram hina hörðustu gagnrýni úr ýmsum áttum, enda eru á
svo miklu kerfi ýmsir fletir sem bjóða árásarmönnum heim, þannig
að mönnum gæti orðið hugsað til umsátursins um Þebuborg hina
fornu, þar sem sjö herstjórar stóðu með lið sitt, grátt fyrir járnum,
hver fyrir utan sitt hlið borgarinnar. Og nú er auðvitað spurningin
sú hvort kerfið hafi staðizt allar árásir og enn sé nokkurt lífsmark
með því eða hvort það sé að velli lagt.
Hið öfgakennda í afstöðu Hegels kemur þegar fram í viðhorfum
hans til stöðu og hlutverks heimspekinnar í mannlegu lífi, en í þeim
efnum hafa flestir aðrir hugsuðir verið lítillátari. Hann leit á heim-
spekina sem drottningu allra þekkingargreina og kórónu allrar
mannlegrar viðleitni, en aðrar greinar sem gerðu tilkall til að vera
mönnum leiðarljós, svo sem trúarbrögð eða list, voru flokkaðar
niður sem óæðra stig þekkingar. En skör neðar voru í hans augum
öll þau vísindi sem byggja á athugun skynjanlegra hluta og söfnun
staðreynda undir merki heilbrigðrar skynsemi, hin svonefndu
raunvísindi, og fór Hegel ekki í launkofa með lítilsvirðingu sína á
fræðum sem létu staðar numið við slíkt. Það ætti því ekki að koma
á óvart, að Hegel hafi líkast til meir en aðrir heimspekingar orðið
fyrir aðkasti þeirra sem standa utan heimspekinnar, og að sumir
vísindalega sinnaðir menn hafi löngum talið Hegel dæmigerðan
skýjaglóp og fræði hans innantóman heilaspuna. En talsmenn
þeirra greina sem að mati Hegels voru ögn hærra settar en vísindin,
trúarbragða og lista, hafa einnig látið til sín heyra og sumir hverjir
ekki sparað köpuryrðin í Hegels garð.
Þessi tröllatrú Hegels á heimspekinni og hlutverki hennar er ná-
tengd því sem við getum kallað rökhyggju hans. Það er sú skoðun
að gera megi grein fyrir eðli veruleikans með rökhugsun eins og
kemur m. a. fram í fleygri setningu í formálanum að Réttarheim-
spekinni (Grundlinien der Philosophie des Rechts, 1821): „Það sem
er skynsamlegt er raunverulegt og það sem er raunverulegt er
skynsamlegt.“ Þar með fetar Hegel á sinn hátt í fótspor hinna
miklu rökspekinga 17. aldar, svo sem Spinoza eða Leibniz, en