Skírnir - 01.09.1987, Page 88
294
KRISTJÁN ÁRNASON
SKIRNIR
samhengi og að skoða hið einstaka jafnan út frá heildinni sam-
kvæmt hinu forna spakmæli, að heildin sé ávallt á undan hlutum
sínum: totum estpartibussuisprius. Þessi alhyggja kemur sterklega
fram í viðhorfum Hegels til sögu og samfélags, en leiðir einnig til
ákveðinnar afstöðu í trúmálum, og hér hefur ekki staðið á kröft-
ugum mótmælum þeirra sem kenna má við einstaklingshyggju,
hvort heldur er í pólitískum eða trúarlegum efnum. Meðal þeirra
má nefna jafn ólíka hugsuði og Þjóðverjann Ludwig Feuerbach
(1804-1872) og Danann Sören Kierkegaard (1813-1855), sem báðir
hömruðu á hugtökum eins og einstaklingur eða „hinn einstaki", og
einnig hugsuð eins og Bertrand Russel (1872-1970) sem eyðir öll-
um kaflanum um Hegel í heimspekisögu sinni í það að reyna að
hrekja þessa heildarhyggju og halda fram sjálfstæði einstakra stað-
reynda.
Hér kann einhverjum að þykja nóg komið af heimspekifræðileg-
um eða hugmyndasögulegum merkimiðum, sem við höfum límt á
heimspeki Hegels, en við getum þó ekki hætt fyrr en við höfum
bætt þeim síðasta við. Hann ber áletrunina söguleg löghyggja. Nú
má raunar tala um löghyggju í fleiri en einum skilningi, en sú sem
okkur stæði næst nú á dögum væri eflaust löghyggja sem kalla má
vélræna eða mekaníska og fellir alla verðandi undir ófrávíkjanleg
orsakaferli sem virðast ríkja í hinum efnislega heimi. En löghyggja
Hegels er af nokkuð öðrum toga, og má raunar skoðast sem einn
þáttur rökhyggju hans og um leið heildarhyggju. Hún birtist í því
að líta á hina sögulegu verðandi sem röklegt eða díalektískt ferli,
þar sem gagnvirkni andstæðna knýr allt áfram, beinir því að
ákveðnu marki og þar sem allt hið einstaka verður skoðað sem lið-
ur í heildinni og háð gagnvirknislögmálum hennar. Hér væri því ef
til vill nær að tala um markhyggju en löghyggju. Hitt væri þó engin
furða, að þeir sem snúast gegn löghyggju kerfisins séu einmitt þeir
sömu og vilja gera uppreisn gegn heildarhyggju þess, halda fram
gildi hins einstaka sem slíks og færa heimspekina inn á svið raun-
verulegra einstaklinga sem standa andspænis vali, en það eru að
sjálfsögðu allir þeir hugsuðir sem eru bendlaðir við tilvistarspeki
eða hugtakið „existens“.