Skírnir - 01.09.1987, Síða 92
298 KRISTJÁN ÁRNASON SKÍRNIR
kerfi Hegels og kemst ekki út á þær brautir vangaveltna um veru,
verðandi, undirstöðu og markmið sem forngrísk heimspeki snerist
um og sem Hegel tekur upp og þróar í rökfræði sinni. En áhrif
Schopenhauers á andlegt líf 19. aldar hafa verið mikil, ekki síður á
skáld og listamenn en heimspekinga. Frá honum liggur þráður til
hugsuða eins og Nietzsches og Freuds og annarra þeirra sem vilja
snúa hinni húmanísku hefð Vesturlanda við og skilja hina fornu
skilgreiningu mannsins að hann sé viti borið dýr eða animalration-
ale á þann veg að höfuðáherzlan fellur á animal en einkunnin rat-
ionale verður hins vegar ærið léttvæg. Einkum má sjá í hugtaka-
kerfi hins síðarnefnda, Freuds, hvernig sú aðferð að stökkva aftur
fyrir vitundina getur af sér nýja goðafræði, þar sem undirheima-
guðirnir Libido og Id liggja í leyni og uppheimsgoðin Animus og
Anima svífa yfir, en „varðmaðurinn“ við hlið undirvitundarinnar
situr og fellir dóma í gríð og erg líkt og Mínos forðum.
III
Hér hefði ef til vill verið ástæða til að gera nokkur skil gagnrýni
Fudwigs Feuerbach á Hegel, en þegar öllu er á botninn hvolft hefur
Feuerbach einkum þá stöðu í sögu heimspekinnar að vera eins kon-
ar milliliður milli Hegels og Marx. Hann er reyndar ekki sízt fræg-
ur vegna þeirrar gagnrýni er Marx beindi gegn honum í hinum
frægu „Greinum um Feuerbach“. Meginviðleitni Feuerbachs
gengur þó í sömu átt og Marx, að reyna að ganga milli bols og höf-
uðs á því kerfi Hegels sem rekja má til guðfræði eða bar keim af
henni og að beina sjónum manna frá draugheimi hugtakanna niður
til hinna einstöku og skynjanlegu hluta og einstaklinga, að breyta
heimsanda Hegels í mannsandann, guðfræði í mannfræði og leysa
hughyggjuna af hólmi með efnishyggju.
Af þessu sprettur eitthvað sem á máli marxista mætti kalla borg-
aralega mannhyggju, þar sem „maðurinn“ eða manneðlið er ein-
hver fastur punktur sem allt gengur út frá, en er þó slitinn úr sam-
hengi við annað. Það er einmitt á þeim forsendum sem Marx gagn-
rýnir Feuerbach, því hann vill líkt og Hegel skilja manninn og
mannlífið í sögulegu samhengi þess og afstæði, og þegar öllu er á
botninn hvolft eru hugtök eins og „mannsandi“, „manneðli“ eða