Skírnir - 01.09.1987, Blaðsíða 94
300
KRISTJÁN ÁRNASON
SKÍRNIR
ist einkum að því að draga fram heildareinkenni ákveðinna menn-
ingarskeiða, jafnframt því sem hún leitast við að sjá í rás sögunnar
rökrétt samhengi og ákveðna stefnu og skýra þróunina fremur með
tilvísun til forsendna en ákveðinna, beinna orsaka, þá vill Marx líta
vísindalegum augum á söguna og hvarvetna finna „raunverulega“
orsök að baki atburðar og ástands, hinn svonefnda „ákvarðandi
þátt“ sem rekja má allar breytingar til, en það eru í hans augum ein-
mitt framleiðsluhættirnir.
Ef við fylgjum nú þessari aðferð að rekja öll söguleg ferli og
fyrirbæri til framleiðsluhátta út í yztu æsar, er hætt við að hin and-
lega þróun, sem Hegel leit á sem raunverulegt inntak sögunnar,
verði aðeins eitthvað sem flýtur ofaná eða endurspeglar það sem
undir býr. Enda þykist og Marx geta afhjúpað allt slíkt, hvort held-
ur það kallast trúarbrögð eða heimspeki, sem ómeðvitaða dulgerv-
ingu hinna raunverulegu aðstæðna og fellt það undir heitið „ídeó-
logía“ eða hugmyndafræði. Oll heimspekiviðhorf verða þannig
fullkomlega afstæð, þar sem það eru framleiðsluhættirnir sem móta
samfélagið og það aftur vitundina, og við þyrftum því að setja fyrir
framan sjálfa frumsetningu heimspeki nýaldar „cogito ergo sum“
svohljóðandi formála sem dregur að mun úr auðsæi hennar: „pro-
ductio est ergo communitas, communitas est ergo cogito“, „fram-
leiðslan er og þess vegna þjóðfélag, þjóðfélagið er og þess vegna
hugsa ég“.
Hér er nefnilega margt óljóst um samband vitundar og ytri veru-
leika eða hugveru og hlutveru, sem engin þekkingarfræðileg grein
er gerð fyrir, og þegar öllu er á botninn hvolft er marxisminn ekki
heimspeki í eiginlegum skilningi og gefur sig heldur ekki út fyrir að
vera það. Annars vegar er marxismi sambland af þjóðfélagsvísinda-
legri aðferð, sem má beita til þess að rannsaka ákveðið orsakasam-
hengi milli framleiðsluhátta og þjóðfélagsgerðar og getur sem slík
orðið okkur að gagni til að átta okkur á stöðu okkar í þjóðfélaginu.
Að svo miklu leyti sem marxistar alhæfa út frá vissum sannindum
og gera þessar alhæfingar að trúarsetningum er marxismi hins vegar
einskonar hugmyndafræði og sem slíkur meira í ætt við trúarbrögð
en heimspeki og fellur þannig sjálfur mætavel undir þá skilgrein-
ingu sem Marx sjálfur gaf á trúarbrögðum: eiturlyf fyrir fjöldann.