Skírnir - 01.09.1987, Síða 96
302 KRISTJÁN ÁRNASON SKÍRNIR
sem var algerlega fjarlægur raunveruleikanum í kringum sig og setti
því jafnaðarmerki milli hans og hins skynsamlega og sá í þróun
ríkisins göngu guðs gegnum söguna.
En þessi mynd Hegels er vægast sagt mjög afskræmd, eins og
þeir vita sem hafa eitthvað kynnt sér pólitísk rit hans. Þróun
prússneska ríkisins eftir hans dag var engan veginn í hans anda, og
skilningur hans á hlutverki ríkisins var engan hátt á þann veg að það
ætti að vera kúgunartæki, bákn eða vald þegnunum framandi, eins
og frjálshyggjumenn og marxistar lýsa því hver um annan þveran.
Það var framar öllu miðlunaraðili milli þeirra stétta sem bera uppi
þjóðfélagið og mynda innbyrðis andstæðu á þann hátt að í senn
ríkir fjölbreytni, ákveðin spenna, jafnvægi og valddreifing, sem
gerir einstaklingnum kleift að njóta sín innan hæfilega stórra stétta-
hópa. Mörgum þykir sem Hegel hafi litið um of um öxl og ekki
horfzt nægilega í augu við þær hrikalegu stéttaandstæður stóriðju-
þjóðfélagsins sem voru að byrja að koma fram á hans dögum, en þó
má sjá af fyrirlestrum hans sem nýlega hafa komið fyrir almennings
sjónir, að hann hefur gefið þessu vandamáli meiri gaum en kemur
fram í Réttarheimspekinni.
Þess má loks geta, að setningin fyrrnefnda úr formálanum fyrir
Réttarheimspekinni, sem þykir að vonum bera vott um meira en
litla íhaldssemi, er í þessum fyrirlestrum til í annarri mynd sem er
trúlega nær því sem hann raunverulega átti við: „Það sem er
skynsamlegt verður raunverulegt og það sem er raunverulegt verð-
ur skynsamlegt.“ Og á öðrum stað „það sem er skynsamlegt þarf
að verða“, en það orðalag bendir fremur til þess að Hegel hafi horft
fram á við og séð ljóslega að sætt eða eining hins raunverulega og
hins skynsamlega kemur ekki af sjálfu sér heldur útheimtir stöðuga
baráttu.
IV
Gagnrýni marxista hefur einkum beinzt að því sem við getum kall-
að hughyggjuþáttinn í söguskoðun Hegels, en þeir hafa hins vegar
ekki fett fingur út í þá löghyggju og heildarhyggju, sem sjá má í
henni, og jafnvel gengið enn lengra í þær áttir en hann. En þessir
þættir í heimspeki Hegels voru hins vegar það sem Sören Kierke-
gaard, einn hatrammasti gagnrýnandi Hegels á öldinni sem leið,