Skírnir - 01.09.1987, Qupperneq 107
SKÍRNIR TILVISTARSTEFNAN OG NORDAL
313
í þessum tilvitnunum kemur fram hjá Sigurði andstaða á milli
þess sem hann kallar „vísindalega skólaheimspeki" og heimspeki
sem er fólgin í því að taka afstöðu til lífsins - „fara eftir einhverri
lífsskoðun, einhverri trú, í hegðun sinni og líferni“. I síðari tilvitn-
uninni er nánari lýsing á þeirri heimspeki sem felst í því að taka af-
stöðu til lífsins. Sigurður segir ekki að heimspeki sé lífsskoðun, trú
eða prédikun. Hann segir: „Það er ein tegund heimspeki að brjóta
heilann um það, hvernig þið eigið að lifa, og það er önnur tegund
heimspeki að afneita allri hugsun um slík efni.“ Með öðrum
orðum: heimspekin, sem hann er að tala um, er fólgin íyfirvegun
sem leiðir til ákveðinnar lífsskoðunar eða trúar.
Enginn kemst hjá því að yfirvega sína eigin tilvist, hugsa um það
sem máli skiptir í lífinu. Það er aukaatriði í þessu sambandi hvort
menn gera það óskipulega og án þess að gera sér það ljóst, eða með-
vitað og skipulega eftir því sem kostur er. I báðum tilfellum er viss
heimspeki með í spilinu sem er ólík eftir því hvers konar afstaða er
tekin til hugsunarinnar sjálfrar, þ.e. hvort menn leitast við að gera
sér hana ljósa eða forðast að velta henni fyrir sér.
Eg túlka það sem hér er haft eftir Sigurði á þessa leið: Það er
hugsun að verki í tilverunni sem knýr hvern mann til að taka af-
stöðu til lífsins og velja úr kostum þess. Þessa hugsun fær enginn
umflúið, en menn hafa að miklu leyti í hendi sér hvernig þeir fara
með hana, hvort þeir sinna henni, leggja rækt við hana eða van-
rækja, jafnvel afneita henni. Það veltur á því, hvernig þið breytið
gagnvart eigin hugsun hvernig heimspeki ykkar verður, en heim-
speki ykkar, hver svo sem hún er eða verður, skiptir sköpum fyrir
líf ykkar, lífsmat og tilveru.
Að mínum dómi er þetta kjarninn í hugsun og heimspeki Sigurð-
ar Nordals. Og nú hljótum við að spyrja: hvernig kemur þessi hug-
mynd um heimspeki saman við hefðbundnar skoðanir á heim-
speki? Er hún tilbúningur Sigurðar Nordals sjálfs, einkaviðhorf
hans til heimspeki, eða á hún sér rætur í þeirri heimspekihefð sem
einkennir vestræna menningu? Er hér á ferðinni eiginleg og jafnvel
djúpstæð heimspekileg hugsun um samband manns og heims, eða
er þetta eingöngu háttur Sigurðar Nordals á að tala til lesenda sinna
eða hlustenda, eins konar bókmenntalegt stílbragð?
Nú setur Sigurður hugmynd sína um heimspeki fram andspænis