Skírnir - 01.09.1987, Page 112
318
PÁLLSKÚLASON
SKÍRNIR
mennt gildi, miðla sannindum sem hefðu gildi fyrir alla menn
(hvort sem þeim er það ljóst eða ekki) - og persónulegt gildi fyrir
hvern mann. Málið varðar mannlífið í heild og hverja einstaka
manneskju.
- Spurningarnar væru ekki bornar fram ef tilgangur lífsins lægi
ljós fyrir og menn vissu hvað mestu skipti í lífinu. Það sem spurt er
um er með einhverjum hætti dulið eða falið.
- Um leið er gengið að því vísu að ákveðnar leiðir í lífinu séu til
meiri gæfu en aðrar og að mönnum eigi að vera kleift að glæða lífið
merkingu eða uppgötva tilgang þess.
Ef þetta er rétt, þá kemur hér fram ákveðið viðhorf annars vegar
til mannlífsins og hins vegar til heimspekinnar. Viðhorfinu til
mannlífsins má lýsa á eftirfarandi hátt: mennirnir hafa með ein-
hverjum hætti týnt sjálfum sér, misst áttanna í lífinu, glatað tilgangi
sínum, orðið framandi sjálfum sér. Líf þeirra er orðið villuráf,
blekkingin hlutskipti þeirra. Viðhorfinu til heimspekinnar má lýsa
á eftirfarandi hátt: heimspekin hefur það hlutverk að endurreisa
vitund manna um sjálfa sig og tilgang lífsins. Hún á að svipta burtu
blekkingunni, gera mönnum kleift að sigrast á markleysunni. Þess-
ar skoðanir eru samofnar í einu viðhorfi: hinn raunverulegi maður
er blekktur, hann þekkir ekki lengur hin sönnu lífsgæði og heim-
spekin á að vísa honum leiðir út úr því feni fordóma og tálsýna sem
hann hrærist í. Þetta viðhorf hefur fylgt heimspekinni frá önd-
verðu. Það kom fyrst fram hjá Parmenidesi og það liggur kenning-
um Platóns til grundvallar, samanber hellissöguna sem er sígild.
Það kemur fram hjá Descartes sem vildi frelsa mennina frá hleypi-
dómum sínum með því að kenna þeim að beita skynsemi sinni rétt,
hjá Hume sem vildi losa menn úr viðjum hugaróra sinna um hið
yfirnáttúrlega með því að fræða þá um hina sönnu náttúru, hjá
Kant sem vildi girða fyrir hið frumspekilega villuráf með því að
sýna fram á takmarkanir mannlegrar skynsemi. Þessi tvö viðhorf
koma skýrt fram í þessu fyrsta erindi Sigurðar Nordals í Líf og
dauði og eru raunar að verki í öllu því sem hann segir um heim-
spekina.
Svo virðist að heimspeki sem einkennist af þessum viðhorfum sé
farin að nálgast trúarbrögðin - að heimspekingur sé sá sem hafi
orðið fyrir opinberun og vilji boða mönnum sannleikann um lífið,