Skírnir - 01.09.1987, Síða 114
320
PÁLL SKÚLASON
SKIRNIR
virðist hálffurðulegt ef það er rétt að heimspekingurinn leggi stund
á einskonar prédikun. Hvað felst í þessu?
Heimspekin er prédikun vegna þess að hún vill fá fólk til að tak-
ast á við vanda eigin tilveru með yfirvegun, hvetja það til að leita
sannleikans um veröldina og eigin stöðu í henni og hvernig það geti
lifað á sem farsælastan hátt. Þetta gerir heimspekin án þess að leggja
nokkurn dóm á það hver sannleikurinn er. En hvernig er það hægt?
I viðleitni sinni til að gera hlustendum tiltæki sitt skiljanlegt nefnir
Sigurður tvö meginatriði (sem hann aðgreinir raunar ekki í texta
sínum), en þau eru:
- Við förum oft illa með lífið, lífsskynjun okkar er bæld eða heft
á marga lund í daglegu lífi; heyrandi heyrum við ekki, sjáandi sjá-
um við ekki. Við erum með einhverjum annarlegum hætti firrt
sjálfum okkur, erum ekki með sjálfum okkur í bókstaflegri merk-
ingu, og við misbeitum frelsinu, notum það til þess að verða hræði-
legustu skepnur jarðar, förum með hugsunina eins og óviti með
tvíeggjað sverð.
— Stundum er eins og hulunni sé svipt af okkur: við skynjum
„blikur af annars konar lífi“, verðum frá okkur numin, okkur verð-
ur ljóst að líf okkar er ekki eins og það gæti verið og ætti að vera,
að vitund okkar sjálfra um lífið skiptir öllu máli, að við erum ábyrg
fyrir lífinu, erum ekki lengur knúin af eðlishvöt dýranna, heldur
ákvörðum sjálf hvað um lífið verður, hvað við gerum úr lífi okkar.
Sem sagt: að við erum og verðum það sem við hugsum.
IV
Hér höfum við inntakið í þeirri prédikun sem Sigurður Nordal
flytur sem heimspekingur. Okkur ber að yfirvega lífið eða réttara
sagt hugsunina sem er að verki í lífinu, í okkur sjálfum og þeirri
menningu sem við tilheyrum. Höfuðatriðin eru þessi: — Mennirnir
hafa misst áttanna, þeir hafa fjötrast við blekkingar og fánýta hluti,
hugsun þeirra er villt, sannleikurinn um lífið er þeim dulinn. -
Leiðin til lausnar er að efla vitund sína um lífið, að staldra við og
spyrja um merkingu þess að vera manneskja, að vera til og vita af
því.
Prédikunin snýst um það að við eigum að leggja rækt við hugsun