Skírnir - 01.09.1987, Side 125
SKÍRNIR TILVISTARSTEFNAN OG NORDAL
331
VII
Nú hef ég lýst annarri hliðinni á tilvistaráformi Sigurðar Nordals.
Hin hlið þess lýtur að uppsprettu þess í hinni andlegu reynslu. Um
hana segir Sigurður:
Andleg (religös) reynsla er mér ekki einungis veruleiki, heldur verulegust
af öllum veruleika. Henni verður varla lýst fyrir öðrum en þeim, sem hafa
rekið sig á hana. Að minnsta kosti skal ég ekki freista þess hér. Hver maður,
sem þekkir hana, veit, að hún færir hann miklu nær því að finna sjálfan sig
en bláköld skynsemin getur gert. Þessa reynslu má öðlast með ýmsum
hætti og á ýmsum stigum. Hún er líftaugin í öllum æðri listum, bæði fyrir
listamanninn sjálfan og þá, sem vilja meta verk hans og skilja. Til dæmis að
taka er jafnóhugsandi að lesa bókmenntir sér að fullu gagni án hennar,
einkanlega ljóð, og að færa sér tónverk í nyt án þess að hafa söngeyra. Menn
geta fundið hana í samlífi við náttúruna, í þjálfun hugsunarinnar, í ást og
fórn. En sú guðsvitund, sem menn geta hlotið á vegum trúarbragðanna, er
vafalaust algengasta og ef til vill fullkomnasta tegund hennar. Alltaf er það
auðkenni hennar, að við sjáum hlutina, lífið og tilveruna opnari og berari
augum en áður. Það er eins og einhverri þoku eða hjúp hafi verið svipt frá
sjónum okkar. Hún getur aldrei komið í bága við skynsemina. Skynsemin
finnur, að andinn er kominn feti lengra í raunverulegri þekkingu en hún
sjálf nær, og þá kemst engin möglun að frá hennar hálfu. Þess vegna hafa
sumir af mestu „trúmönnum“, sem sögur fara af, eins og t. d. Blaise Pascal,
um leið verið hinir efagjörnustu og harðskynsömustu menn. (LD, s. 143-
144)
Sigurður hefur tvíbent viðhorf til andlegrar reynslu. Annars veg-
ar lítur hann á hana sem afhjúpun hinnar mennsku tilveru: hún geri
allt lífið ljósara, bjartara. Hins vegar lítur hann á hana sem „eins
konar þreifara mannsandans inn í myrkur hins óráðna"33 og telur
hana þekkingarleið í vissum skilningi. I báðum tilvikum tengist
hún innblæstri og andagift, sannfæringu sem verður heilög vissa,
ósannaður sannleikur. „Andleg reynsla“ er sem sagt orð Sigurðar
yfir það sem Kierkegaard tjáði með orðunum „Subjektiveteten er
sandheden" og Sigurður útlagði svo: „það sem maður er sannfærð-
ur um af allri persónu sinni og öllu hjarta sínu, það er sannleikur.“
En hvað merkir þetta nákvæmlega? Getur sannleikurinn einungis
verið sannleikur fyrir mig og þar með verið breytilegur frá einum
manni til annars? Það á ekki við hinn hlutlæga eða vísindalega
sannleika, heldur hinn „frumlæga" sannleika, sem Sigurður nefnir