Skírnir - 01.09.1987, Blaðsíða 133
SKÍRNIR
KRISTIN TRÚ Á TÆKNIÖLD
339
heimur framtíðar að heilsa, vísindin og tæknin voru að umskapa
veröldina til góðs, aðeins til góðs.
Ég var barn míns tíma. Trúin á tæknina hafði verið fyrirvaralaus.
Iðnvæðing gat ekki verið beggja handa járn. Mengun var lítt þekkt
hugtak. Og var svo lengi.
Ég man eftir því, að sú saga gekk manna á milli, að stórum
skömmtum af DTT hefði verið dælt í Sogið. Þetta var upp úr stríðs-
lokum. Þar með var allt mýbit úr sögunni við Alftavatnið bjarta.
Hvort sagan var sönn, veit ég ekki, en hitt veit ég, hvernig talað
var um þetta, og það skiptir ekki síður máli: Menn voru hróðugir
yfir þessu, þótti ekkert vafasamt við það að nota þessa nýju tækni
til að eyða óþrifum í náttúrunni. Maðurinn var frjáls í umsvifum
sínum, vit hans, þekking og tæknivald þurfti ekki að taka tillit til
neins í sókn sinni. Sá bjargast, sem ber af. Það var lögmál þróunar-
innar, sagan um samkeppni líftegundanna (survival of the fittest).
Eðlislög náttúrunnar höfðu hafið manninn til yfirráða og stefndu
honum markvíst fram til vafalausra sigra.
Trúin á vísindin og tæknina var lengi almenn, öflug og bjartsýn.
Og víst var hún á rökum reist, það hefur sannast með óræku móti.
Hún fól í sér óskorað traust mannsins á sjálfum sér. Hann þurfti
ekki að efast um leiðsögn vitsmuna sinna og aflsmuna, ef hvort
tveggja fengi að njóta sín án fordóma.
Sú trú hefur ekki sannað sig að sama skapi. En á blómaskeiði
hennar varð sú ályktun eða tilfinning æði ásækin, meðvitað og dul-
vitað, að trúarhugmyndir, sem þóttu vera byggðar á vísindalega
órökstuddum staðhæfingum og hvergi gátu komið að neinu haldi
í tæknilegri sókn og sigurvinningum, væru dagaðar uppi, væru al-
gerir strandarglópar við breiðan og greiðan veg þróunarinnar fram
og upp. Þessar hugmyndír voru arfur frá rökkvuðum tímum hand-
an vísindalegrar dögunar og raunhyggju.
Ég hef skotið augum í skyndi yfir farinn veg til þess að minna á
atriði, sem varða aðstöðu kristinnar trúar svo lengi sem ég man eftir
mér og lengur. Þeir, sem eru kunnugir hugmyndasögu síðustu 150
ára, kannast við það, hvernig hugsjónin um vísindalegt raunsæi
hefur verið sett í kerfi með ýmsum nöfnum og af mikilli bjartsýni
á það, að vandi mannlegs lífs yrði allur leystur, ef rökvísi, vit, þekk-
ing á lögum náttúrunnar og mannfélagsins fengi að ráða.