Skírnir - 01.09.1987, Page 134
340
SIGURBJORN EINARSSON
SíJÍRNIR
Ég þarf ekki að minna á, hvaða viðhorf til kristinnar trúar hafa
verið í fyrirrúmi út frá þessum lífsskilningi. Og mig langar ekki til
þess að smjatta á þeirri staðreynd, hvernig hugsjónin um vísinda-
lega raunhyggju hefur getað haldist í hendur við átakanlega blint
óraunsæi og gagnrýnislausa uppgjöf fyrir trúðleikum af ýmsu tagi,
einkum pólitískum.
Það var fyrst með fyrri heimsstyrjöld, að menn vöknuðu af þeim
draumi, að máttur mannsins væri einhlítur til góðs. Þá rann það
upp, að vísindi og tækni hafa tvær ásjónur, ekki aðeins þann svip
frelsandi engils, sem áður blasti við, heldur líka annan, sem sver sig
í aðra ætt.
Síðan kom önnur heimsstyrjöld. Tækninni fleygði stórlega fram
meðan hún geisaði og í kjölfar hennar. Sú stríðstækni, sem gat lagt
stóran hluta Evrópu í rúst, var glingur á móti þeirri, sem nú er
tiltæk. Þeir svo nefndu friðartímar, sem vér höfum notið síðan,
hafa einkennst af ótta við djöfulskap vísinda og tækni.
Og enn annað bætist við: A síðustu tímum er það ekki aðeins
stríðstæknin, sem vekur beyg og efa um framtíð heimsins, heldur
líka sú umbylting á frumlægum lífsskilyrðum á þessum hnetti, sem
tækniundrið mikla hefur valdið á skömmum tíma og ekki er séð
fyrir endann á. Því miður er ástæða til að efast um, að vísindalegt
raunsæi og þekking nái að taka í tauminn í tíma. Önnur öfl í fari
mannsins virðast taka ráðin af vitinu, þegar hagsmunir líðandi
stundar eru í húfi og sú nærsýni ræður, sem kallast pólitískt eða
viðskiptalegt raunsæi.
Það er m.ö.o. meginspurning, eins og nú er komið, hver sé að-
staða mannsins í þeim heimi vísinda og tækni, sem hann lifir í núna.
Hér er að sjálfsögðu aðeins hrært við miklu máli. En það dylst ekki,
að sá veruleiki, sem maðurinn hefur skapað með afrekum sínum, er
ekki eins einsær, tryggur og bjartur og menn dreymdi fyrr á tíð.
Lífskennd hins sigrandi manns á tindi tæknilegrar þróunar er
tvíbent, að ekki sé meira sagt. Margir taka þá stefnu, sem lýst er í
fornri, postullegri greiningu á vonarsnauðu lífsviðhorfi: Etum og
drekkum, því á morgun deyjum vér.
En hitt getur líka gerst, að ennþá eldri orð, ævaforn frumspurn-
ing, leiti á, svo að ekki verður undan vikist: Maður, hvar ertu, hver
ertu? Hvers vegna ertu hér? Af hverju ertu eins og þú ert? Hvers