Skírnir - 01.09.1987, Side 146
352
SIGURBJÖRN EINARSSON
SKÍRNIR
Dæmum um slíkt mætti fjölga að vild.
Jesús var sérstæður í því að nota líkingar eða segja dæmisögur til
þess að veita innsýn inn í leynda dóma Guðs ríkis, eins og hann
komst sjálfur að orði í því sambandi. Um sjálfan sig notaði hann
einnig líkingar, margar þær sömu og Gamla testamentið notar um
Guð en aðrar nýjar: Góði hirðirinn, brúðguminn, lind lífsins,
brauð lífsins, ljós heimsins, hinn sanni vínviður, hveitikornið, sem
verður að deyja til þess að bera ávöxt.
Allt eru þetta aðgengilegar myndir að því leyti, að hverjum
manni er augljóst, að um táknmál er að ræða. Það er ekki alltaf jafn-
auðsætt. Væntanlega gera sér flestir grein fyrir því umsvifalaust, að
þegar Jesús segir, að Guð sé faðir, þá er hann ekki að segja satt, ef
orðið er skilið á þann veg, sem beinast liggur við, þegar barn hugsar
og talar. Samt fær barnið gilda tilvísun með þessu orði um leið og
það skynjar eitthvað af því öryggi, sem góður faðir veitir því - og
góð móðir. Því Jesús er ekki að flokka Guð eftir kyni. Hann er að
benda á hliðstæðu á sviði mannlegrar reynslu, sem beinir huga í átt
til þess, hvernig Guð kærleikans sinnir um börnin sín, styður,
varðveitir, gefur, býður og bannar, allt af sama hugarþeli: Hann
elskar.
Þegar Jesús segir, að hann sé kominn til þess að gefa líf sitt til
lausnargjalds, þá var það gagnsæ líking í þeirri samtíð hans, sem
þekkti mörg dæmi þess, að menn voru leystir úr ánauð eða skulda-
fangelsi með gjaldi. Reyndar er slíkt ekki ótítt heldur nú á dögum.
En hvorki fyrr né síðar var þessi líking hans né aðrar, sem leiddar
voru af henni, bókstafleg afhjúpun á því, sem í huga hans bjó og
kristnir menn hafa séð í ljósi þessara orða. I augum þeirra hitta
þessi ummæli hans í mark sem mynd, sönn og samkvæm dýpstu
reynslu þeirra, en gegnum hana sjá þeir leyndardóm, sem engin
líking, engin mannleg orð ná tökum á.
Víða í Biblíunni er brugðið upp sýnum, sem varpa leiftrum yfir
upphaf og endalok heimsins. Jesús dregur upp litsterkar myndir af
efsta dómi, þegar tilveran öll fæðist að nýju eftir fæðingarhríðir
sögunnar. Það mætti vera skiljanlegt hverju meðalviti, að um slík
efni verður ekki hugsað né talað öðruvísi en í táknmyndum.
Sköpunarsagan svo nefnda og margrædda í fyrstu bók Móse og
sýnirnar í síðustu bók Biblíunnar, Opinberun Jóhannesar, eru