Skírnir - 01.09.1987, Síða 154
360
JÓN f>. ÞÓR
SKÍRNIR
að koma inn í landhelgi með botnvörpu innanborðs, jafnvel þótt
þau væru ekki að veiðum. Eina undantekningin var, ef þau voru að
leita hafnar í neyð.
Eins og vænta mátti brugðust Bretar illa við þessu ákvæði lag-
anna. Með því var togurunum bannað að koma til íslenskra hafna,
nema í neyðartilfellum, og þeir áttu á hættu að verða teknir og
missa veiðarfæri sín, ef þeir lögðu leið sína um venjulegar siglinga-
leiðir innan landhelgi. Atti það t. d. við um sundið milli Vest-
mannaeyja og lands, en um það fóru breskir togarar undantekn-
ingalítið á leið til Faxaflóa.
Lögin frá 1894 voru vissulega mjög hörð, og má líta á þau sem
nauðvörn alþingismanna gegn yfirgangi togaranna. En lögin urðu
ekki til að fjarlægja meinsemdina. Landhelgisgæsla var alltof lítil,
og mörg bestu mið íslenskra bátasjómanna, einkum á Faxaflóa,
lágu utan þriggja mílna, en þar máttu togararnir veiða lögum
samkvæmt. Ogþar er komið að kjarna málsins: Framkoma togara-
manna var á þann veg, að árekstrar við íslenska sjómenn voru
óhjákvæmilegir. Togaramenn sáust oft lítt fyrir, en toguðu yfir
veiðarfæri íslenskra báta, þegar svo bar undir, og urðu margir fyrir
miklum skaða af þeim sökum. Auk þess voru flestir á einu máli um,
að vegna veiða togaranna á grunnslóð yrði afli Islendinga miklum
mun minni en ella. Kvörtunum undan yfirgangi togaranna rigndi
yfir íslensk og dönsk stjórnvöld, og hlaut öllum að verða ljóst, að
við svo búið mátti ekki standa.
Dönsk stjórnvöld brugðust svo við, að þau sendu eitt öflugasta
skip danska flotans, beitiskipið Hejmdal, til landhelgisgæslu á Is-
landsmiðum og gáfu skipherranum fyrirmæli eða heimild til að
framfylgja lögunum frá 1894 til hins ýtrasta. Hann gerði það, og
má sem dæmi nefna að 3. og 4. maí 1896 tók hann þrjá breska togara
á siglingu á sundinu milli Vestmannaeyja og lands, færði þá til
hafnar og voru skipstjórarnir allir sektaðir. Að auki voru togarar
teknir annarstaðar við landið þetta vor.
Eins og vænta mátti báru breskir togaraskipstjórar og útgerðar-
menn sig illa undan þessari harðneskju, sem þeir kölluðu, og leit-
uðu ásjár breskra stjórnvalda. Þá var þess skammt að bíða, að til
enn meiri tíðinda drægi.