Skírnir - 01.09.1987, Síða 171
SKÍRNIR
SKÍRNISMÁL
377
gerðarsmíð sé hluti af fornum íslenskum menningararfi. Hins veg-
ar má benda á ritgerðir 19. aldar manna ef einhvern skyldi skorta
fyrirmyndir í því efni. En eru fyrirmyndir og áhrif möguleg ef eng-
inn er til þess að taka sér fyrirmyndirnar og verða fyrir áhrifunum?
Leiðir þá ekki af þessu að hér eru ekki á ferðinni hlutlæg einkenni
menningararfsins og áhrif þeirra, heldur hugmyndir „okkar“ um
menningararfinn? Sé eitthvað hæft í því sem greinarhöfundur segir,
þá er ekki við hinn forna menningararf að sakast, heldur verður að
leita orsakanna annars staðar en í honum sjálfum.
Þessu næst víkur Halldór að söguskilningi fornritanna og telur
að áhrif hans séu líka takmarkandi. Annars vegar byggist sögu-
skilningurinn á því að veita vitneskju um menn eða málefni, hann
sé ekki réttnefndur skilningur. Hann miðist einkum við hlutdeild
nafnkunnra einstaklinga í framvindu atburðarásarinnar. Menn
festi sjónir á ytri raunveruleik, einstaklingum og fróðleiksmolum.
Fornritin hindri þar með raunverulegan skilning á sögunni. Hins
vegar móti menningararfurinn söguskilninginn með því að stokkið
sé til 600 ára gamallar fyrirmyndar, og þar með stökkvi menn yfir
600 ár í sögunni. En þarna er augljóslega verið að tala um viðhorf
okkar til menningararfsins en ekki áhrif menningararfsins á okkur.
Þar kemur greinarhöfundur reyndar að veigamiklu atriði og afar
rótgrónu. Það er auðvitað ekki svo að hinn forni menningararfur
móti söguskilning okkar. Miklu heldur eru hugmyndir okkar um
menningararfinn mótaðar af söguskilningi okkar, sem byggist á
hugmyndinni um gullöld, fall og endurreisn. Gullöld, þar sem
hetjur riðu um héruð, fall, þar sem hnipin þjóð í vanda þraukaði
veturinn, endurreisn í vorvindi sjálfstæðisbaráttunnar fyrir afrek
stjórnmálaskörunga og skálda. Það má telja nokkurn veginn
fullvíst, að hér sé ekki komin söguskoðun þeirra sem skráðu forn-
ritin. Hitt mun sönnu nær að þessi söguskoðun sé hvort tveggja í
senn arfur frá fornmenntastefnunni og yfirfærsla guðfræðilegra
hugmynda á þjóðarsöguna. Söguskilningurinn byggir sem sagt
ekki á menningararfinum, heldur eru hugmyndir okkar um menn-
ingararfinn mótaðar af söguskilningnum. Að tala um vond áhrif
fornritanna á söguskilninginn er því út í hött. Það er söguskilning-
urinn sem er undirstaðan, ekki fornritin.
Að síðustu fjallar Halldór um siðferði fornritanna. Hann segir