Skírnir - 01.09.1987, Qupperneq 180
386
MARGRÉT EGGERTSDÓTTIR
SKÍRNIR
5. Bókin er tölvusett af höfundi með hjálp ungra tölvusnillinga. Stafvillur
eru varla til („fjörustjarna“ einhvers staðar, og er þó vart á þáfjölbreytni
bætandi eins og fyrr segir, og „eins“ fyrir eisa í fræðiorðaskránni þar
sem erfitt er að lesa í málið). Hins vegar gengur illa með erlent letur, eins
og vill verða um heimasetta texta. Danskt 0 er ekki notað og ekki franskt
é (hins vegar ítalskt í), ekki einu sinni enskt úrfellingarmerki nema á
hvolfi (í eignarföllum og í einföldum gæsalöppum; á einum stað er það
þó rétt). Slæmar orðmyndir koma fyrir: spurningamerki og (stundum)
byggingítlist. Og viðvaningslegt er að setja punkt á eftir fyrirsögnum
(hins vegar yfirleitt ekki á eftir heilum setningum í atriðaskránum). I
heild fær setningin þó góða einkunn.
Helgi Skúli Kjartansson
Thor Vilhjálmsson
GRÁMOSINN GLÓIR
Svart á hvítu 1986.
Grámosinn glóir er tuttugasta og þriðja bók Thors Vilhjálmssonar. Hann
sagði í viðtali í Tímanum 2. nóvember 1986: Hún „ber töluna 23, eins og
páfinn með stóra nefið, sem öllum þótti vænt um, leysti allt úr viðjum og
það sem meira er, eyddi ýmsum kreddum“. - Fyrri ritverk hans eru smá-
sagnasöfn, ljóðabækur, greinasöfn og skáldsögur, og auk þess bók um
Kjarval, leikþættir og þýðingar. Skáldsögur Thors eru um margt sérkenni-
legar og svo ólíkar hefðbundnum skáldsögum að hann er talinn brautryðj-
andi nýrrar stefnu í íslenskri skáldsagnagerð, stefnu sem kennd er við mód-
ernisma.
Það sem einkennir tvær fyrstu skáldsögur Thors, Fljótt, fljótt sagðifugl-
inn 1968 og Óp bjöllunnar 1970 eru ákaflega myndrænar lýsingar og ljóð-
rænn stíll, þar sem venjulegur söguþráður eða atburðarás er engin og ekki
heldur hefðbundin persónusköpun. Heimur sögunnar birtist ekki sem
rökræn heild sem hægt er að fá yfirsýn yfir heldur er hún heimur óreiðu,
myndröð ýmiss konar skynjana, hugmynda og áhrifa. I næstu tveim sögum
hans, Foldu 1972 og Fuglaskottís 1975 er annað uppi á teningnum. Folda er
reyndar alls ekki skáldsaga heldur „þrjár skýrslur“, þrjár stuttar sögur sem
fjalla að nokkru leyti um sama efni. Þær eiga það sameiginlegt með skáld-
sögunni Fuglaskottís að hafa eiginlegan söguþráð og samhengi í persónu-
sköpun, stað og tíma. Mánasigð 1976 er aftur skyldari tveim fyrstu sögun-
um. Þar er brugðið upp alls konar myndum héðan og þaðan, úr fortíð og
nútíð, en allar koma þó úr huga sama mannsins sem ferðast í lest á miklum
hraða. Turnleikhúsið 1979 er sömu gerðar. Aðalpersónan ferðast um alls
konar ranghala í látlausri leit að einhverju sem hún veit tæpast hvað er og
lýst er því sem fyrir augu ber, ytri sýn og innri skynjun.