Skírnir - 01.09.1987, Side 201
SKIRNIR
RITDÓMAR
407
[. . .] skelfingu þinni lostin
stígur engilsmynd þín upp úr lindinni
og rífur ímyndun þína á hoi
Adeilan á nútímamanninn verður þó aldrei verulega bitur í Tengslum,
fær aldrei útrás sem reiði, enda „er ekki öllum gefið að vaða uppi með stór-
yrði“, eins og Stefán Hörður benti eitt sitt réttilega á. Miklu fremur birtist
ádeilan sem kaldhæðni eða „austurlensksorg“. Umheimurinn megnar ekki
að raska ró skáldsins. Það á sér öruggt athvarf í eilífri veröld listarinnar og
getur leyft sér að gera gys að alheiminum og tilveru mannsins. Það leikur
sér að fjarstæðum og þverstæðum sem í senn sýna okkur hlutina í nýju ljósi
og gera okkur enn ruglaðri í ríminu. I ljóðinu „Sjónhending" vekur skáldið
til dæmis athygli á því „að bilin milli stjarna mynda stjörnur og stjörnur
bilin“ (bls. 27). Hér ríkir sama heimspeki afstæðisins og þeir Tómas
Guðmundsson og Steinn Steinarr innleiddu í íslenska ljóðagerð, listin að
vekja menn til umhugsunar með þversögnum, með því að snúa út úr hvers-
dagslegum sannindum. Stysta Ijóð Tengsla, „Inni“ (bls. 23), hljóðar
þannig:
Þú
Hjúpur veralda
án þín
Ollu færri geta orðin vart verið í einu ljóði - ef ljóð þagnarinnar er
undanskilið. En magn og innihald eru víst ekki sama fyrirbærið, þó mörg-
um verði á að halda því fram, og ef við hugleiðum dýpt orðanna sjáum við
að hér er í raun og veru sagt allt sem máli skiptir, og það í tvennum skilningi
eins og í öllum góðum skáldskap.
Urðargaldur
I viðtalsbókinni Stríð og söngur komst Þorsteinn frá Hamri svo að orði að
í skáldskap og öðrum listgreinum væri brýnast að vera persónuleika sínum
trúr. Tískuhreyfingar og stefnur gerðu lítið fyrir menn ef hjartað væri ekki
með í leiknum (bls. 194).
Ljóðin í nýjustu bók skáldsins, Urðargaldri, sýna að þessi orð eru ekki
sögð án ábyrgðar. Reyndar hefur skáldið alltaf verið nálægt í ljóðum
sínum, en ef til vill aldrei jafn nálægt og hér. Persónulegt orðfæri Þorsteins,
í senn þjóðlegt og fornt á þessum síðustu tímum, hljómar sterkar en áður,
og það ljóðform sem hann hefur lagt rækt við, blendingur hefðbundinna
brageiginda og nútímalegs myndmáls, hefur styrkt sig í sessi. En það sem
mestu varðar er að persóna skáldsins, líf þess og reynsla, hugsanir og til-
finningar, hafa komið mun meira fram í sviðsljósið en í fyrri ljóðabókum.