Skírnir - 01.09.1987, Page 206
412
PALL VALSSON
SKÍRNIR
Fram að þeim tíma lögðu fræðimenn, sem sinntu bókmenntum, fyrst og
fremst stund á textafræði enda var sannarlega mikið starf óunnið á þeim
vettvangi. Aðrar hliðar bókmenntanna, t. d. rannsóknir á frásagnarfræði,
formgerð og hugmyndafræði þeirra lágu að miklu leyti óbættar hjá garði,
enda sjálfsagt að fallast á hárþeitta röksemd fílólóga: Aður en að slíkum
hlutum kemur þarf að hafa réttan texta.
Fræðilegar athuganir á þeim hliðum bókmenntanna sem að ofan voru
nefndar styðjast því ekki við ríka hefð og sú staðreynd er ástæða þess hve
fátæk við erum að ritum um bókmenntir okkar, um einstök skáld og skáld-
skap og á það jafnvel við um höfuðskáld. Það er ekki margt sem bendir til
þess að veruleg breyting sé að verða á í þessu efni; enn geta menn talið á
fingrum sér þær bækur sem koma út um skáldskap. Hins vegar liggja nú
a. m. k. margar ritgerðir á söfnum sem eiga erindi við aðra en innvígða. Það
þarf líklega ekki að hafa mörg orð um hversu brýnt er að úr þessu ástandi
rætist. í góðum fræðibókum er fólginn tengiliður við fólkið í landinu;
mikilvægur hlekkur í því að gera bókmenntirnar nákomnar alþýðunni sem
auðvitað hlýtur að skipta sköpum fyrir framtíð íslenskra bókmennta.
Ein ritröð í þessa veru hefur þó komið út í hálfa öld. Fyrst fræðilegra rit-
gerða undir samheitinu Studia Islandica var ritgerð Einars Olafs Sveinsson-
ar um Sagnaritun Oddaverja árið 1937. Að vísu hefur útgáfa þessara bóka
verið misjafnlega kröftug og stundum hafa orðið löng hlé á útkomu þeirra
eða þá engu hefur verið líkara en að bókaútgáfa sú sem að þeim stendur vilji
stunda sína starfsemi í kyrrþey og forðast fyrir alla muni að minna á fjöl-
margar ágætar bækur í þessari seríu. Þó hefur trúlega aldrei verið brýnna en
nú að tryggja viðgang ritraðar sem þessarar með myndarlegum hætti og
ganga vasklega til verks.
II.
Bók Matthíasar Viðars Sæmundssonar, Ást og útlegð, er mikil að vöxtum
og þar er vitanlega miklu fleira rætt en nokkur tök eru að geta um í umsögn
sem þessari. Eins og fram kemur í undirtitli er Matthías að kanna frumdaga
íslensku skáldsögunnar; - árin frá 1850 til 1920 þegar hvörf eru að verða í
íslenskum bókmenntum. Þetta er ekki lítið verkefni og tekur þó Matthías
til athugunar fleiri texta frá þessu tímabili en menn hafa til þessa talið til al-
varlegra bókmennta. Af þessum sökum er augljóst að höfundur verður að
búa sér til einhvern ramma, trausta afmörkun þannig að honum auðnist að
gera efninu viðunandi skil.
Þennan vanda leysir Matthías með því að skoða bókmenntir þessa tíma
undir mjög fastmótuðu sjónarhorni. I sérhverjum texta einblínir hann á
ástina og hvernig hún rekst á við samfélagsboð, með andstæðurnar ein-
staklingsþörf - samfélagsboð efst í huga. Matthías gengur í þessu efni í
smiðju til Sigmunds Freud; andstæður hans eru grundvallaðar á kenningu
Freuds um andstæður veruleikalögmáls og vellíðunarlögmáls sem hann
lýsir m. a. svo: