Tímarit um menntarannsóknir - 01.06.2012, Blaðsíða 7
7
Í þessu tölublaði TUM birtast nú eingöngu ritrýndar greinar. Ekki var hægt að koma
nema átta greinum fyrir og varð því ritstjórn að hafna mörgum þar sem framboð góðra
greina er nú, og hefur verið undanfarin ár, mun meira en svo að þær komist allar fyrir
í hefti af viðráðanlegri stærð. Ritstjórn hefur, í samstarfi við höfunda, lagt metnað í að
gera þær greinar sem valdar voru svo vel úr garði sem kostur er.
Í rannsóknarskýrslum birtast á stundum allvíðtækar ályktanir um skólastarf sem
dregnar eru af viðtölum við fólk. Rannsakendur sem beita viðtölum við gagnaöflun
þurfa að átta sig á því að með þeirri aðferð finna þeir ekki „raunveruleikann“ heldur
túlkun viðmælanda á honum; þeir finna merkingu. Um þetta, meðal annars, fjallar fyrsta
greinin í ritinu að þessu sinni. Gunnlaugur Sigurðsson og Kristján Kristjánsson gagn-
rýna þar þá skiptingu milli megindlegra og eigindlegra rannsóknaraðferða sem nú er
svo algeng. Í staðinn greina þeir á milli rauntengsla, sem þeir halda fram að báðir þessir
kostir feli í sér, og merkingartengsla í anda Heideggers og Winch. Umfjöllun þeirra er
áhugavert og tímabært framlag í allt of litla umræðu um aðferðafræði í menntarann-
sóknum hér á landi.
Önnur greinin rekur upphaf uppeldislegrar smíðakennslu, „slöjd“, á Íslandi. Gísli
Þorsteinsson og Brynjar Ólafsson, sem báðir hafa verið smíðakennarar í grunnskóla
en eru nú háskólakennarar í hönnun og smíði, fjalla um upphafsmenn greinarinnar í
Skandinavíu og hérlendis í upphafi tuttugustu aldar. Þetta er athyglisverð saga, byggð
á frumgögnum sem þeir félagar hafa aflað erlendis. Fjöldi persónulegra ljósmynda með
greininni gera hana enn áhugaverðari. Vert er að hugleiða í þessu samhengi uppeldis-
legt gildi verkgreina og að vegur þeirra í skólastarfi hér á landi virðist lítið hafa vænkast
undanfarna áratugi.
Kristín Bjarnadóttir skrifar um sögu stærðfræðimenntunar, í þetta sinn um tilraunina
með „Nýju stærðfræðina“ sem kennd var við Agnete Bundgaard og innleidd var í ís-
lenska barnaskóla á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Að sögn Kristínar má rekja upphaf
menntunarfræði stærðfræði til eftirmála nýstærðfræðinnar. Rannsókn hennar beinist að
því hvernig efnið, sem beið hvarvetna skipbrot þar sem það var innleitt í barnaskólum,
var kynnt fyrir kennurum, foreldrum og almenningi og hver viðbrögðin urðu. Hún
bendir á ýmislegt sem betur hefði mátt fara til að koma í veg fyrir skipbrotið og hvað
læra megi af þessari tilraun til umbóta á skólastarfi.
Meyvant Þórólfsson fjallar um menntun grunnskólanema í „náttúruvísindum“.
FRÁ RITSTJÓRA
Tímarit um menntarannsóknir /
Journal of Educational Research (Iceland) 9, 2012, 7–10