Tímarit um menntarannsóknir - 01.06.2012, Blaðsíða 82
82
Meyvant Þórólfsson
námskrár sem Bruner (1966) vakti athygli
á og fólst í því að hugtök og hugmyndir
birtust nemendum endurtekið, en í hvert
sinn í slíkri mynd að það reyndi á dýpri
skilning eftir því sem ofar dró. Síðast en
ekki síst var hér um að ræða víða sýn á
sögu og þróun mannsins sem lífveru á
jörðinni. Í stað afmarkaðs inntaks, t.d. um
sögu lands og þjóðar á ákveðnum tímum,
eins og tíðkast hafði áður, skyldi nú efla
hjá nemendum gagnrýna og vísindalega
hugsun, vekja spurningar og opna sýn
á samhengi hlutanna fremur en að taka
því sem gefnu er stæði í kennslubókum.
Þarna var sannarlega á ferðinni einlægur
vilji til að vekja nemendur til djúpstæðrar
vitundar um eigin stöðu í samhengi við
lífið á jörðinni. En ekki verður annað séð
en að félags- og mannvísindaleikurinn,
MACOS, hafi verið frábrugðinn náttúru-
vísindaleiknum í einu mikilvægu tilliti.
Þar var gert ráð fyrir að nemendur tækju
fullan þátt frá upphafi til enda, enda mátti
ljóst vera að aðferðir í félags- og mann-
vísindum voru annars eðlis en aðferðir í
náttúruvísindum:
Aðferðir í samfélagsfræði hljóta einnig að mótast
nokkuð af því að rétt svör við spurningum um
samfélagið eru ekki til á sama hátt og rétt svör t.d.
í eðlis- og efnafræði þar sem kennarinn getur oft
leitt nemendur sína til einnar viðurkenndrar nið-
urstöðu (Menntamálaráðuneytið, 1977, bls. 11).
Þarna má segja að námskrárhöfundar
hafi hitt naglann á höfuðið: „ … þar sem
kennarinn getur oft leitt nemendur sína til
einnar viðurkenndrar niðurstöðu [í eðlis-
og efnafræði].“ Þessi orð snerta nefnilega
kjarnann í því sem Yager átti við með
hinum leyndardómsfulla leik alvöruvís-
inda: Fræðimenn og vísindamenn lögðu
línurnar, kennarar voru sérfræðingar í að
miðla inntakinu og leiða nýgræðingana til
einnar viðurkenndrar niðurstöðu.
Hugmyndirnar að baki MACOS höfðu
töluverð áhrif á námskrárþróun í Banda-
ríkjunum með útgáfu margvíslegra náms-
gagna og samþættingu námssviða. Þær
náðu einnig fótfestu í Englandi með The
Humanities Curriculum Project (Stenhouse,
1975). Vissulega skutu svipaðar hugmynd-
ir upp kollinum annars staðar, einnig hér-
lendis í námskrár- og námsgagnagerð.
Hugmyndir Taba, Bruners og Stenhouse
mótuðu töluvert starfið í skólarannsókna-
deild menntamálaráðuneytisins undir
forystu Wolfgangs Edelstein, einkum
starf samfélagsfræðihópsins svokallaða
á árunum 1974 til 1984 (Gunnar E. Finn-
bogason, 1995; Ingólfur Á. Jóhannesson,
1991; Þorsteinn Gunnarsson, 1990;). En
ekki er eins ljóst hver áhrif MACOS urðu
hérlendis í reynd, þ.e. á vettvangi skóla-
starfs. Ef marka má umræðuna við lok
þessa tímabils, það er tíma sem kallaður
var „söguskammdegið“, virðast áhrifin
þó hafa orðið allnokkur, sbr. fræga fyrir-
sögn í dagblöðum: „Snorra Sturluson eða
samfélag bavíana?“ (Sighvatur Björgvins-
son, 1983).
Náttúruvísindaleikurinn
berst til Íslands
Hin róttæka umbreyting á sviði náttúru-
vísinda, nýi náttúruvísindaleikurinn sem
Yager nefndi svo, náði hins vegar miklu
meiri útbreiðslu og áhrifum en MACOS.
Meira að segja hefur verið bent á að áhrif-
anna gæti enn nú á dögum, um hálfri
öld síðar (Akker, 2003; Turner, 2008). Hin
snöggu þáttaskil í skólasögu, sem lýst