Tímarit um menntarannsóknir - 01.06.2012, Blaðsíða 137
137
Skóli án aðgreiningar og kennaramenntun
Hæfnisviðin eru fjögur:
• að geta lagt mat á ólíkar þarfir nem-
enda: að líta á fjölbreytileika sem
mannauð og menntunarauka;
• að veita öllum nemendum stuðning:
kennarar hafa væntingar um að allir
nemendur nái árangri;
• að geta unnið með öðrum: samstarf
og teymisvinna eru öllum kennurum
mikilvæg;
• að þroskast í starfi: kennsla er náms-
ferli – kennurum ber að stunda sí-
menntun (Evrópumiðstöðin fyrir þró-
un í sérkennslu, 2011, bls. 10).
Á hverju hæfnisviði eru undirþættir um
viðhorf og skoðanir, þekkingu og skilning,
hæfni og getu. Í skýrslu um undirbúning
kennara fyrir kennslu fjölmenningarlegra
nemendahópa er bent á að kennaranemar
þurfi að öðlast færni í að meta viðhorf sín
gagnvart annarri menningu en sinni eigin,
þróa með sér samhygð, kynnast aðferðum
til að fjalla um fordóma á viðeigandi hátt,
öðlast næmi fyrir ólíkri menningu og að
nýta vel þann styrk sem börn úr minni-
hlutahópum koma með í nemendahópinn.
Að auki þurfa þeir að hafa á valdi sínu
hæfni til samskipta við foreldra (European
Union Knowledge System for Lifelong
Learning, 2007).
Oft er kennaranámið skipulagt þannig
að ákveðin námskeið eru í boði um skóla
án aðgreiningar eða sérkennslu og eru þau
ýmist í kjarna eða tilheyra valgrein (Evr-
ópumiðstöðin fyrir þróun í sérkennslu,
2011; Lambe, 2007; Lancaster og Bain,
2007; Van Laarhoven o.fl., 2006). Stayton
og McCollun (2002) könnuðu rannsóknar-
greinar sem birtust á árunum 1990–2000
í ritrýndum fræðitímaritum og fjölluðu
um það hvernig sérkennsla og skóli án
aðgreiningar voru kynnt kennaranemum
víðs vegar um heiminn. Niðurstöður
þeirra voru að eftirfarandi þrjár leiðir
væru algengastar: Innleiðing þar sem nem-
endur sækja eitt til tvö námskeið um skóla
án aðgreiningar. Samstarfsverkefni þar
sem fjallað er um skóla án aðgreiningar á
nokkrum námskeiðum og kennaranemar í
almennri kennslu og sérkennslu eru sam-
an í vettvangsnámi. Samþætt námskeið þar
sem allir kennaranemar taka sömu nám-
skeið þar sem þeir fá undirbúning fyrir
kennslu í grunnskóla og sérstök áhersla er
á nemendur með sérþarfir.
Í mörgum löndum Evrópu eru tvö kerfi
þar sem almennum kennurum er kennt
í öðru kerfinu en sérkennurum í hinu og
lítið er um samskipti þeirra á milli (Evr-
ópumiðstöðin fyrir þróun í sérkennslu,
2011). Nemendahópar eru fjölbreyttir og
erfiðleikar margbreytilegir. Þess vegna má
spyrja hvort hyggilegt sé að mennta kenn-
ara í ólíkum aðgreindum kerfum. Einnig
má spyrja hvar skuli setja mörkin; hvaða
erfiðleikar séu þess eðlis að hinn almenni
kennari geti ekki brugðist við þeim eða
lært að bregðast við þeim. Með þessu fyr-
irkomulagi er hætta á að hinum almenna
bekkjarkennara séu send þau skilaboð að
hann sé einungis fær um að kenna sum-
um nemendum. Florian og Rouse (2009)
telja að sérkennsla sem kennd er í grunn-
menntun kennara styrki tilfinningu fyrir
aðgreiningu sem einkennir sérkennslu og
leiði til þeirra viðhorfa að kennarar sem
hafi fengið tilgreinda menntun eigi að bera
ábyrgð á börnum með sérþarfir.