Tímarit um menntarannsóknir - 01.06.2012, Blaðsíða 12
12
Gunnlaugur Sigurðsson og Kristján Kristjánsson
Grein þessi er ágóði heilabrota og skoð-
anaskipta fyrri og síðari höfundar um að-
ferðafræði í væntanlegu doktorsverkefni
hins fyrrnefnda. Það verkefni fjallar um
þátt námshvatar og sjálfsaga í eðli og
stöðu náms hjá nemendum á unglinga- og
framhaldsskólaaldri á Íslandi.1 Þegar við
veltum því fyrir okkur hvaða aðferðafræði
gæti best náð að höndla þetta tiltekna
rannsóknarefni varð niðurstaðan sú að
tiltekin merkingartengslakenning, í anda
heimspekingsins Ludwigs Wittgenstein
og félagsfræðingsins Peters Winch, yrði
þar vænlegri til árangurs en hefðbundnar
megindlegar eða eigindlegar aðferðir. Sú
niðurstaða hefur, að okkar dómi, mun víð-
ari skírskotun en nemur tilteknu doktors-
verkefni eins rannsakanda. Þar af leiðandi
teljum við að rökstuðningur okkar eigi
erindi við lesendur þessa tímarits sem
margir hverjir munu glíma við sambæri-
legar spurningar um önnur skyld rann-
sóknarefni á sviði menntunarfræða.
Svo vill til að sáralítið hefur verið rýnt á
gagnrýninn hátt í djúpar og víðfeðmar að-
ferðafræðilegar spurningar um eðli rann-
sókna í menntunarfræðum (eða raunar
í hug- og félagsvísindum almennt) á ís-
lensku. Grein þessa ber að skilja sem til-
raun til ýtinnar hugkveikju um efni sem
á erlendum málum teldist væntanlega til
svokallaðrar „meta-aðferðafræði“: fræði-
legrar umræðu um aðferðafræði. Nú er
ekki svo að skilja að aðferðafræði bíti al-
mennt við útgarðana í skrifum um félags-
og hugvísindi á Íslandi. Þvert á móti er
naumast skrifuð svo hversdagsleg B.Ed.-
1 Greinin byggist að hluta til á samþykktri rann-
sóknaráætlun að doktorsritgerð fyrri höfundar þar
sem síðari höfundur er aðalleiðbeinandi.
ritgerð á Menntavísindasviði Háskóla
Íslands (svo að dæmi sé tekið) – að ekki
sé minnst á meistara- og doktorsverkefni
– að hana prýði ekki hinn gullvægi „kafli
númer þrjú“ um aðferðafræði rannsóknar-
innar. Því miður bera margir þessir kaflar
þó, að okkar dómi, merki þess sem á ensku
hefur verið kallað methodolatry, og mætti
nefna „aðferðafræðiblæti“ á íslensku,
þar sem aðferðafræði er blótuð aðferða-
fræðinnar vegna (en ekki megintilgangs
rannsóknarinnar). Einkenni slíks blætis
eru einatt þau sömu og hjá trúmanni án
trúarhita sem íhugunarlaust sækir messu
á helgidögum: Trúin er virt fyrir siðasakir
og í kurteisisskyni. Þannig má einatt skilja
af slíkum köflum að viðfangsefni rann-
sóknarinnar hafi nánast krafist þeirrar til-
teknu aðferðafræði sem valin var og hún
fallið rannsakandanum í skaut eins og
manna af himnum. Í þessa umræðu skortir
sárlega það sem Steinn Steinarr hefði kall-
að „lífsháskann“. Með örfáum undantekn-
ingum, þar sem fræðimenn ræða viðsjálni
og vandkvæði aðferðafræðivals á gagn-
rýninn hátt (sjá t.d. Guðmund Sæmunds-
son, 2010; Sigurð J. Grétarsson, 2003; og
nokkrar greinar í safni ritstýrðu af Sigríði
Halldórsdóttur og Kristjáni Kristjánssyni,
2003) er aðferðafræðiumræða hér á landi
í senn bragðdauf og einátta. Að svo miklu
leyti sem átök og ágreiningsefni rata inn
í þessa umræðu snúast þau einungis um
valið milli megindlegrar og eigindlegrar
aðferðafræði, þar sem höfundurinn virðist
fyrirfram sannfærður um yfirburði ann-
arrar hvorrar. Að okkar dómi er þar um
einhæfa afarkosti að ræða, eins og útskýrt
verður í næsta kafla.
Nánar tiltekið teljum við að aðferða-