Tímarit um menntarannsóknir - 01.06.2012, Blaðsíða 61
61
Nýja stærðfræðin í barnaskólum
Miðlun upplýsinga til kennara,
foreldra og almennings
Kristín Bjarnadóttir Háskóla Íslands, Menntavísindasviði
Áhyggjur af gagnsemi og skilvirkni stærðfræðikennslu eftir heimsstyrjöldina síðari urðu
til þess að endurskoðunarhreyfingar spruttu upp víða á Vesturlöndum. Stærðfræðingar
og skólafólk á Norðurlöndunum fjórum, Danmörku, Noregi, Svíþjóð og Finnlandi, tóku
sig saman um samningu námsefnis í anda endurskoðunarhreyfingar í kjölfar afdrifaríks
fundar í Royaumont í Frakklandi. Hluti þess efnis var þýddur á íslensku, meðal annars
efni fyrir barnaskóla eftir Agnete Bundgaard. „Nýja stærðfræðin“, sem svo var nefnd,
var innleidd á öllum skólastigum á Íslandi á sjöunda áratug tuttugustu aldar. Námsefni
barnaskólans var kynnt fyrir kennurum með viðamiklu námskeiðahaldi og fyrir foreldr-
um og almenningi með 17 sjónvarpsþáttum ásamt greinum og viðtölum í fjölmiðlum.
Lýst er rannsókn á því hvernig þessari kynningu var háttað, viðbrögðum við henni og
annarri opinberri umræðu um nýju stærðfræðina.
Mun fleiri skólar og kennarar tóku að kenna námsefnið en unnt var að styðja með
handleiðslu og ráðgjöf. Um tíma náði nýja stærðfræðin til meirihluta íslenskra barna um
allt land en þó aðallega í Reykjavík þar sem tilraunastarfið hófst. Svo virðist sem upplýs-
ingar hafi verið settar fram með óraunsæjum hugmyndum um gildi nýju stærðfræðinnar,
að tímasetning sjónvarpsþáttanna hafi ekki verið heppileg og að meiri upplýsinga hafi
verið þörf þegar námsefnið hafði verið innleitt á öllu barnaskólastiginu. Enn fremur var
námsefnið mun fræðilegra en annað námsefni af sama toga.
Ekki má þó álykta að eingöngu hafi stefnt í óefni á Íslandi. Nýja stærðfræðin, sem upp-
haflega var ætlað að undirbúa menntaskólanemendur betur en áður undir háskólanám
í stærðfræðilegum greinum, beið hvarvetna skipbrot þar sem hún var innleidd í barna-
skólum. Íslendingar brugðust einnig skjótt við þegar ljóst var að námsefni barnaskólanna
var óhentugt og nýtt námsefni hafði þegar verið undirbúið innan fimm ára frá því að
tilraunir með nýju stærðfræðina hófust í barnaskólum. Ekki má heldur álykta að nýja
stærðfræðin og kynning á henni hafi verið með öllu ómöguleg. Greint er frá viðtölum
við fjóra viðmælendur sem bera nýju stærðfræðinni og sjónvarpsþáttunum vel söguna.
Ritrýnd grein
Tímarit um menntarannsóknir /
Journal of Educational Research (Iceland) 9, 2011, 61–77