Tímarit um menntarannsóknir - 01.06.2012, Blaðsíða 153
153
„Nú er ég alveg búinn að
fatta hvernig ég á að vera“
Dregið úr langvarandi hegðunarerfiðleikum grunnskólanemenda
með einstaklingsmiðuðum stuðningsáætlunum og stighækkandi
viðmiðum um frammistöðu
Guðrún Björg Ragnarsdóttir Hlíðaskóla, Reykjavík
og Anna-Lind Pétursdóttir Háskóla Íslands, Menntavísindasviði
Sagt er frá rannsókn á áhrifum einstaklingsmiðaðra stuðningsáætlana með stighækkandi
viðmiðum um frammistöðu á truflandi hegðun grunnskólanemenda. Þátttakendur voru
fjórir 7–8 ára piltar í 2. og 3. bekk sem höfðu sýnt hegðunarerfiðleika í 5–7 ár þrátt fyrir
ýmis úrræði. Virknimat var gert á hegðun nemendanna með viðtölum við kennara, nem-
endur og foreldra þeirra auk beinna athugana á aðdraganda og afleiðingum truflandi
hegðunar. Einstaklingsmiðaðar stuðningsáætlanir voru útbúnar með hliðsjón af niður-
stöðum virknimats undir handleiðslu sérfræðings í atferlisgreiningu og kennarar fylgdu
áætlununum eftir undir handleiðslu sérkennara. Stuðningsáætlanirnar fólu í sér úrræði
sem beindust að bakgrunnsáhrifavöldum, breytingar á aðdraganda, þjálfun í viðeigandi
hegðun og hvatningarkerfi. Til að auka smám saman sjálfstæði þátttakenda og draga úr
umfangi íhlutunar voru notaðar fjórar til sjö útgáfur af hvatningarkerfi fyrir hvern þeirra
með stighækkandi viðmiðum um frammistöðu. Áhrif stuðningsáætlananna á truflandi
hegðun voru metin með margföldu grunnskeiðssniði milli þátttakenda. Niðurstöður sýna
að verulega dró úr tíðni truflandi hegðunar hjá þremur af fjórum þátttakendum, eða um
89% að meðaltali, við íhlutun. Aðlagaðar áhrifsstærðir íhlutunar fyrir þá þrjá reyndust
stórar, eða d = 2,2 að meðaltali. Lítil áhrif komu fram hjá fjórða þátttakandanum. Hinir þrír
þátttakendurnir héldu áfram að sýna viðeigandi hegðun þrátt fyrir stighækkandi viðmið
um frammistöðu og eftir að notkun hvatningarkerfis lauk. Niðurstöður eru í samræmi
við fyrri rannsóknir og benda til þess að hægt sé að draga úr langvarandi hegðunarerfið-
leikum nemenda og ýta undir sjálfstjórn þeirra með einstaklingsmiðuðum stuðningsáætl-
unum sem byggjast á virknimati og fela í sér stighækkandi viðmið um frammistöðu. Þó
er frekari rannsókna þörf, meðal annars til að endurtaka áhrifin með öðrum aldurshópum
og meta áhrifin til lengri tíma.
Ritrýnd grein
Tímarit um menntarannsóknir /
Journal of Educational Research (Iceland) 9, 2012, 153.–177.