Tímarit um menntarannsóknir - 01.06.2012, Blaðsíða 78
78
Yager og náttúruvísindaleikurinn1
Meyvant Þórólfsson Háskóla Íslands, Menntavísindasviði
1Hér er vísað til skrifa Roberts E. Yager um nám í náttúruvísindum sem leik (e. game of science), sbr. heiti á
stuttri grein hans, Never playing the game (1988). Á íslensku er hér notað orðið náttúruvísindi, fremur en nátt-
úrufræði, af því það hefur því miður hlotið óljósa merkingu í skrifum og umræðu um þetta mikilvæga svið
í almennri menntun. Hér er með öðrum orðum átt við fræðin um lifandi verur og hinn lífvana efnisheim,
fremur en fræðin um náttúruundur á borð við fossa, fugla og blóm í barmi fósturjarðarinnar. Því til áréttingar
skal á það bent að orðið „náttúra“ er samheiti orðsins „eðli“ og sömu merkingar og grískættaða orðið physis,
sbr. fræðin um eðli hlutanna (physics). Í fyrstu kennslubók á sviði náttúruvísinda hérlendis (Fischer, 1852)
kynnti höfundurinn til dæmis eðlisfræði sem kjarna náttúruvísinda, af því að það svið leitaðist við að útskýra
lögmál hins lífvana efnisheims og einnig hins lifandi efnisheims.
Hagnýtt gildi: Greininni er meðal annars ætlað að skerpa sýn hagsmunaaðila, jafnt kenn-
ara, skólastjórnenda, fræðsluyfirvalda, starfsfólks kennaramenntunarstofnana sem annarra,
á þróun náttúruvísindamenntunar hér á landi með hliðsjón af þróuninni annars staðar á
Vesturlöndum. Athyglinni er sérstaklega beint að ýmsum þeim vandamálum sem sérfræðingar
á sviði náttúrufræðimenntunar hafa þurft að glíma við, ekki síst þeim álitamálum sem við
stöndum frammi fyrir nú á dögum.
Ritrýnd grein
Tímarit um menntarannsóknir /
Journal of Educational Research (Iceland) 9, 2012, 78–95
Robert E. Yager, prófessor við Iowa-háskóla í Bandaríkjunum, varði stórum hluta starfs-
ævinnar í rannsóknir og skrif um náttúruvísindamenntun í almenna skólakerfinu með
svonefnda STS-áherslu að leiðarljósi. Yager leit á náttúruvísindamenntun 20. aldar sem
eins konar leik, þar sem áhersla hefði verið lögð á að nemendur tileinkuðu sér leikreglur,
lögmál og aðferðir, en þeim hefðu sjaldan gefist tækifæri til að stunda leikinn sem sjálf-
stæðir þátttakendur, þ.e. að glíma við raunveruleg viðfangsefni, sýna hæfni, frumkvæði
o.s.frv. Tíminn hafi að mestu farið í að búa sig undir leikinn og gangast undir próf úr
honum, en ekki að stunda hann sjálfan við raunverulegar aðstæður. Þessi mynd sem
Yager dró upp af náttúruvísindamenntun 20. aldar er borin saman við námskrárþróun
hérlendis á seinni hluta 20. aldar. Í lok greinarinnar eru reifuð helstu álitamál sem sér-
fræðingar á sviðinu standa frammi fyrir nú í upphafi nýrrar aldar.