Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2013, Side 140
hjá honum ekki umorðun trúarvissu, heldur trúfræðileg hugmynd sem
framkallar að mati Webers einsemd hjá einstaklingnum.73 Þegar trúin
er á þennan máta bundin við náðarútvalningu Guðs, verður allt annað
undirskipað náðarútvalningunni. Einstaklingurinn getur ekki lengur í eftir-
fylgdinni við Krist gripið til fagnaðarerindisins - sem mætir honum í
predikun, sakramentum og samfélagi trúaðra - til að yfirvinna efa, óvissu
eða aðra mannlega veikleika. Innan kalvínismans er náðarmeðulum ýtt
til hliðar sem stoðum í heigun mannsins74 og athugar maðurinn þess í
stað líf sitt og breytni til að finna staðfestingu þess að hann sé útvalinn.
Hann beitir skynsemi, rökhugsun og hagkvæmni til að sjá merki hennar.
Einstaklingurinn losar hér, að mati Webers, hægt og hægt um tök hefða og
ytri veruleika á lífi sínu. Líf hans er skilgreint af handanveru útvalningar.
„Veröldin er til staðar - og einungis vegna þess - til að gera Guð dýrlegan,
tilvera útvalins kristins einstaklings felst alfarið í því að auka við dýrð Guðs
með hlýðni við boð hans. Guð vill aftur á móti samfélagslega virkni krist-
inna einstaklinga, því að hann kýs að mótun samfélagsins sé í samræmi við
boð hans og tilgang.“75 Vinna mannsins verður mótandi og krefst skynsemi,
rökhugsunar og hagkvæmni. Heimurinn er í krafti hennar sneyddur allri
dulúð, áreiðanleika og þverstæðum. Hann verður hægt og hægt færður úr
búningi goðsagna og afhelgaður.76
Eina sem eftir stendur er vinnan og meðal kalvínista verður hún að
vettvangi dýrðar Guðs, því að í henni er Guð gerður dýrlegur. Vinnan
verður að vitnisburði um útvalningu og velgengni að tákni hennar. Afköst
og arður vinnunnar hefur þar með ekki gildi í sjálfu sér, heldur vísar slíkt
til eilífðarinnar. Að vinna til að auka við fé og tryggja eigin „veraldlega“
velmegun er aukaatriði í þessari sýn.
Á þennan máta er sneitt hjá verkaréttlætingu. I þessu kerfi réttlæta
ekki verkin, heldur hefur vinnan táknræna stöðu og tekur mið af stöðu
einstaklingsins í handanverunni. Þannig fær hún sjálfstætt vægi fyrir það að
vísa til veruleika náðarútvalningar viðkomandi einstaklings. Það sem vinnan
gaf af sér, fyrir utan það sem einstaklingar þörfnuðust fyrir sig og sína, settu
73 Max Weber, Dieprotestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 145 [95].
74 Max Weber, Dieprotestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 151, 155 [108, 114-115].
75 Max Weber, Dieprotestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 148 [99-100].
76 Max Weber, Dieprotestantische Ethik und der Geist des Kapitalismus, 146 [95-96].
138