Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Page 4
3
Ritið 2/2017, bls. 3–12
Að hinsegja heiminn
„Að okkar mati er ekki hjálplegt að líta á hinsegin fræði sem fyrirbæri,“
segja Lauren Berlant og Michael Warner í gestapistli um hinsegin fræði
sem þau voru beðin að skrifa í bandaríska tímaritið PMLA árið 1995.
„[H]insegin fræði eru ekki fræði um neitt sérstakt og þeim tilheyrir engin
tiltekin ritaskrá“, bæta þau síðan við.1 Þetta ekki-fyrirbæri sem þau fjalla
um og rífa niður í sömu andrá var nýtt, ferskt, spennandi og í hraðri mótun
á ritunartíma pistilsins en það útskýrir ekki mótþróa höfundanna gegn því
að skilgreina það. Í þessari ögrandi mótsögn má hins vegar segja að felist
kjarni og virkni hinsegin fræða allt frá upphafi tíunda áratugarins til dagsins
í dag: að afbyggja og gagnrýna orðræður og skilgreiningakerfi, jafnvel þótt
það hafi í för með sér afbyggingu á eigin skrifum. Í þessu samhengi skiptir
einnig máli að hinsegin fræði, eða „hinsegin umfjöllun“ eins og Berlant
og Warner kjósa að nefna ekki-fyrirbærið, eru ekki bara akademísk heldur
spruttu upp úr aktívisma og hafa alla tíð þróast og þrifist á báðum sviðum
– kannski ekki síst í samspili þar á milli. Höfundarnir benda þannig á að
orðið „fræði“ (e. theory) sé of bundið við háskólaumhverfið:
Orðræðan um „hinsegin fræði“ gefur sér að viðfangið sé akademískt
en hinsegin umfjöllun á sér lifandi fordæmi og snertifleti í fagur-
fræðilegum greinum og blaðamennsku. Það er ekki hægt að fella
hana inn í eina orðræðu, hvað þá eitt fullyrðingakerfi.2
Að sama skapi er flókið að festa hendur á hugtakinu hinsegin (e. queer).
Hin róttæka og afbyggjandi merking þess – sú sem Berlant og Warner
1 Lauren Berlant og Michael Warner, „Hvað kenna hinsegin fræði okkur um x?“,
þýð. María Helga Guðmundsdóttir, bls. 170 í þessu hefti. Í inngangi þýðanda er
fjallað um samhengið sem greinin birtist í, m.a. um tímaritið PMLA.
2 Sama rit, bls. 170.