Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Page 14
13
Ritið 2/2017, bls. 13–37
Guðrún Elsa Bragadóttir
Af usla og árekstrum
Sálgreining í ljósi hinsegin fræða
Á endanum áttarðu þig óhjákvæmilega á því að þótt kynið sé
tilbúningur þá eru umferðarljós það líka, og ef þú hunsar þau
verðurðu fyrir bíl. Sem var líka búinn til.
(Nevada, Imogen Binnie)
Við verðum að hætta að afskrifa [kvenleika] sem „gervi“ eða
„gjörning“ og viðurkenna þess í stað að ákveðnir þættir kvenleika
(sem og karlleika) heyra hvorki til félagsmótunar né líffræðilegs
kyns – annars væru stelpulegir drengir og strákalegar stúlkur
ekki til.
(„Trans Women Manifesto“, Julia Serano)
Haustið 2010 sýndi RIFF heimildarmyndina Feikaðar fullnægingar (Fake
Orgasm, 2010) eftir Jo Sol. Myndin fjallar um Lazlo Pearlman, sem titlar
sig meðal annars kynlífs-, blætis-, gjörninga- og innsetningalistamann, en
verk hans eru gjarnan innblásin af reynslu hans af því að vera trans maður. Í
tengslum við sýningu myndarinnar fóru fram pallborðsumræður í Norræna
húsinu sem leikstjórinn tók þátt í ásamt Elísu Björgu Örlygsdóttur-
Husby, þáverandi formanni Trans Ísland, og Thomasi Brorsen Smith, þá
MA-nema í kynjafræði. Ákveðin togstreita í hugmyndum viðstaddra um
kyn gerði umræðurnar sérlega frjóar, en þar mátti í grófum dráttum greina
tvö ólík sjónarmið sem virðist erfitt að sætta.
Annars vegar varð ljóst að mörgum viðstaddra þótti samfélagslegar
hugmyndir um kyn vera sér framandi og fannst mikilvægt að litið væri á
einstaklinga sem manneskjur fyrst og fremst en kyn væri gert að aukaatriði.
Einhver benti í því samhengi á að hið óvenjulega ástand hefði skapast að
salurinn væri fullur af fólki sem ætti erfitt með að skilja af hverju nokkur
vildi vera af einhverju kyni eða hvers vegna það gæti ekki verið flæðandi
og breytilegt. Hins vegar voru aðrar raddir einnig áberandi í umræðunum;
þeirra sem upplifðu mjög sterk tengsl við kyn sitt og þótti síður en svo