Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Side 17
16
hvernig Butler beitir sálgreiningu í verkum sínum, auk þess sem gagn-
rýni og umræðu um verk hennar meðal fræðafólks af sviði sálgreiningar
eru gerð skil, en Tim Dean, Patricia Gherovici og Shanna Carlson fara
þar fremst í flokki. Greina má í aðferð Butler og viðbrögðum við skrifum
hennar nokkrar ólíkar nálgunarleiðir á sálgreiningu og hinsegin fræði.
Butler rýnir í kenningar sálgreiningarinnar og endurskoðar þær svo þær
falli betur að hinsegin nálgun. Dean er meðal þeirra sem lesa sálgrein-
ingu sem hinsegin kenningu; hann dregur fram hinsegin þræði sem hann
telur að séu þegar til staðar þegar vel er að gáð. Gherovici er svo dæmi um
fræðikonu sem beitir klínískri nálgun; hún byggir á reynslu sinni af því að
vinna með skjólstæðingum sem eru trans, ræðir þá þekkingu sem þeir hafa
fært henni og leggur til að hugmyndir sálgreiningarinnar um kynvitund
verði þróaðar áfram í ljósi þessarar þekkingar.6
Gagnrýnin sem fjallað verður um er gjarnan sett fram af höfundum
sem nálgast sálgreiningu á hátt sem er afar ólíkur aðferðum Butler, en hún
gengur út frá því að sálgreining sé í grunninn orðræða sem miði að því að
viðhalda ríkjandi (gagnkynhneigðum) samfélagsviðmiðum.7 Hér verður
því alls ekki neitað að sálgreining hafi farið, og fari því miður enn, oft fram
með (heteró)normatífum hætti og hún lesin og túlkuð á vegu sem festir í
sessi gagnkynhneigð viðmið. Hins vegar er meginforsenda þessarar grein-
ar sú að þess háttar notkun á sálgreiningu sé ekki aðeins illa ígrunduð,
heldur byggi gjarnan á túlkun sem lítur framhjá mikilvægum forsendum
sálgreiningar og stríðir jafnvel hreinlega gegn inntaki textanna sem hún
byggir á.8
finna „náttúrulegri“ eða „upprunalegri“ kvenleika utan ríkjandi táknkerfis og því
sé löngu orðið tímabært að „endurhugsa möguleika til viðnáms þegar kemur að
kynverund og kynvitund innan forsendna sjálfs valdsins.“ (bls. 42) Hún hefst handa
við það verkefni í þriðja hluta bókarinnar, „Niðurrífandi líkamsgjörðir“. Annar
hluti, „Bann, sálgreining og vefur gagnkynhneigðarinnar“, er sá sem snýr fyrst og
fremst að sálgreiningu.
6 Samtökin ’78 skilgreina trans sem „regnhlífarheiti yfir fólk sem fer út fyrir það sem
er talið hefðbundið kyn, þar undir eru trans karlar [þ.e. karlar sem var úthlutað
kvenkyni við fæðingu] og trans konur [þ.e. konur sem var úthlutað karlkyni við
fæðingu], fólk sem fer í aðgerðir, fólk sem vill ekki aðgerðir, fólk sem vill hvorki
skilgreina sig sem konu né karl, eða vill blöndu af báðu.“ Sjá bækling Samtakanna
’78, „Hvað er Hinsegin“, Reykjavík: Samtökin ’78 og Reykjavíkurborg, 2015. Sótt
27. ágúst af https://www.samtokin78.isfraedsluefni.
7 Judith Butler, Bodies That Matter: On the Discursive Limits of Sex, New York &
London, 1993, bls. 22.
8 Greinarhöfundur mun því ekki eyða tíma lesenda í umfjöllun um verk fræðafólks
og sálgreinenda sem eru fordómafullir í garð ólíkra hópa hinsegin fólks. Nálgast
GuðRún Elsa BRaGadóttiR