Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Side 27
26
Sálgreining Lacans byggir á þeirri hugmynd að sjálfsveran upplifi skort
og að sá skortur grundvalli upplifun hennar á heiminum. Það hvernig hún
bregst við skortinum veltur hins vegar á því hvaða stöðu hún tekur sér
innan þess sviðs sem Lacan kallar „hið táknræna“ (f. le symbolique), sem
tekur til tungumálsins og annarra táknkerfa sem samfélag manna byggir
á. Á því sviði felur karllæg (f. masculin) staða í sér afneitun á þessum skorti
(‚þráir að hafa fallusinn‘) en sú kvenlæga (f. feminin) tilraun til að bregðast
við skortinum í sér og Hinum (‚þráir að vera fallusinn‘).38 Báðar eru þessar
stöður ómögulegar vegna þess að hér er ekki um bókstaflegan skort að
ræða. Lacan gerir mikilvægan greinarmun á þrá annars vegar og líkamleg-
um eða líffræðilegum þörfum hins vegar og byggir þar á þeim skilningi
Freuds á hvötinni sem fjallað var um hér að ofan. Sjálfsveran þráir vegna
þess skorts sem hún upplifir innan hins táknræna, ekki vegna þess að hún
upplifir þörf sem hægt er að fullnægja á sama hátt og seðja má hungur, svo
dæmi sé tekið.39
Ekkert viðfang getur fullnægt þránni, sem er samkvæmt kenningum
Lacans – líkt og hjá Freud – án nokkurs hefðbundins viðfangs. Lacan
kynnti til sögunnar hugtakið „viðfangið a“ (f. objet petit a) til að tákna það
sem knýr þrá sjálfsverunnar, það sem gefur henni þá hugmynd að hægt
sé að fullnægja takmarkalausri löngun hennar með takmörkuðum við-
föngum. viðfangið a er kynlaust en hins vegar hefur verið bent á að þetta
samband sjálfsverunnar við það lýsi fyrst og fremst karllægu stöðunni í
kynjamismunarjöfnunni og að sú staðreynd að Lacan staðsetji a á hlið
hinnar kvenlægu sjálfsveru afhjúpi þau gagnkynhneigðu viðmið sem séu
engu að síður til staðar í henni.40
Þótt stöðurnar tvær í kynjajöfnu Lacans ákvarðist ekki af líffræðilegu
kyni – upp að því marki að „karlmaður, líffræðilega séð, getur engu að síður
tekið sér hina kvenlægu stöðu“41 – er jafna kynjamismunar í raun formræn
38 Þegar Lacan talar um „Hinn“ vísar hann til „menningarlegra táknkerfa.“ Sjá Tim
Dean, Beyond Sexuality, bls. 1.
39 Sama rit, bls. 197–198.
40 Sjá Shanna Carlson, „Transgender Subjectivity and the Logic of Sexual Difference“,
Differences 2/2010, bls. 46–71, hér bls. 58, og Tim Dean, „Homosexuality and the
Problem of Otherness“, Homosexuality and Psychoanalysis, Chicago & London:
University of Chicago Press, bls. 120–143, hér bls. 137. Carlson bendir þó á að
þetta þýði ekki að kvenlægu stöðunni fylgi ekki samband við viðfangið a, heldur
frekar að a sé síður mikilvægt fyrir þá stöðu en til dæmis sambandið við skortinn í
Hinum.
41 Patricia Gherovici, Please Select Your Gender, bls. 126.
GuðRún Elsa BRaGadóttiR