Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Page 36
35
að viðfangsefni sínu, og samkvæmt Gherovici leiðir dulvitundin í ljós að
„stöðug kynvitund er ekki til, aðeins sinthomatísk sjálfsvitund.“79 Ástæða
þess að við getum ekki „valið okkur kyn“ er því ekki sú að við séum á valdi
hugmyndafræðinnar sem samfélagið innlimar okkur í frá barnæsku, held-
ur vegna þess að það tilheyrir rauninni; eitthvað í okkur er þegar búið að
„velja“, staðsetja okkur gagnvart kyninu. við þurfum bara að takast á við
afleiðingarnar.
Kynusli og árekstrar: niðurstaða
Í upphafi þessarar greinar birtist tilvitnun í skáldsöguna Nevada eftir
Imogen Binnie, þar sem söguhetjan Maria, trans kona og bókabúðarstarfs-
maður, bendir á að „þótt kynið sé tilbúningur þá [séu] umferðarljós það
líka, og ef þú hunsar þau verðurðu fyrir bíl. Sem var líka búinn til.“80 Í
kjölfarið fylgdu fleiri árekstrar; hugmyndafræðilegir árekstrar. Árekstur
hugmynda um „kynleysi“ og afbyggingu kynsins við það sem kalla mætti
sálrænan veruleika kyns; árekstur hinsegin kynverundar Freuds við „æxl-
unarmiðuðu“ kynhvötina sem samtíðarmenn hans voru hallir undir;
árekstur Freuds við sjálfan sig og dulvitundina þegar hann reyndi að skapa
kerfi til að skýra þróun kynverundar í átt að gagnkynhneigðum viðmiðum;
og hugmyndafræðilegir árekstrar hinseginfræðinga á borð við Judith
Butler og Tim Dean.
Eins og sjá má á því sem á undan hefur farið kennir ýmissa grasa í
fræðum þar sem hinsegin fræði og sálgreining fara saman, en það væri
stórkostleg einföldun að smætta þá frjóu hugsun og umræður sem þar fara
fram niður í árekstra. Þvert á móti leikur enginn vafi á því að nú fer fram
mikilvæg vinna við að endurlesa og endurhugsa kenningar sálgreinenda
á borð við Freud og Lacan og að aðferðirnar sem hinsegin nálgun hefur
leyst úr læðingi eru afar margbreytilegar. Ljóst er að Butler hefur með
endurskoðun sinni á kenningum sálgreiningar kallað fram margs konar
viðbrögð sem miða fyrst og fremst að því að kanna fleiri möguleika til
að hugsa um sálgreiningu í samhengi hinsegin veruleika. Dean, líkt og
Philippe van Haute og Herman Westerink, les texta sem mynda kenninga-
79 The unconscious reveals that there is no stable sexual identity, only sinthomatic
identities.“ Sama rit, bls. 247.
80 „Eventually you can’t help but figure out that, while gender is a construct, so is a
traffic light, and if you ignore either of them, you get hit by cars. Which, also, are
constructs“. Imogen Binnie, Nevada, New York: Topside Press, 2013, bls. 26.
AF USLA OG ÁREKSTRUM