Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Side 45
44
sú fyrrnefnda hafði grátið það beisklega „að mega ekki gefa sig synd sinni
svo gaumgæfilega á vald að ekkert annað kæmist að“.18
Hér á eftir verður leitast við að varpa ljósi á frásögn Málfríðar af
Guðrúnu Sveinbjarnardóttur, kynferði hennar og því að hún hafi getið
barn með konu, og hún skoðuð út frá ýmsum hliðum. Út frá tiltækum
heimildum mun ég velta upp ýmsum túlkunarmöguleikum en í síðari hluta
greinarinnar mun ég gera einum möguleikanum hærra undir höfði en
öðrum því hann snýr að sviði sem lítið hefur verið til umræðu í íslensku
fræðasamfélagi hingað til, og sem kallað hefur verið eftir frekari umræðu
um. Hér er átt við þann möguleika að Guðrún hafi í raun gengið „með
rangt ákvarðað kynferði alla ævi“; verið með kynbreytileika sem fellur
undir það sem nú á dögum er kallað intersex.19
Guðrún Sveinbjarnardóttir
Útlínur ævi Guðrúnar Sveinbjarnardóttur liggja nokkuð ljósar fyrir í til-
tækum heimildum. Hún var fædd 19. júní árið 1831, fjórða í röðinni af
níu börnum Sveinbjarnar Egilssonar, rektors Bessastaðaskóla, og Helgu
Benediktsdóttur konu hans, sem upp komust.20 Eldri voru Þuríður (1823–
1899), Benedikt (1826–1907) og Egill (1829–1896) en yngri Kristín (1833–
1879), Sigríður (1835–1913), valborg Elísabet (1838–1870), Þorsteinn
(1842–1911) og Guðlaug Ragnhildur (1843–1866). Engar beinar upplýs-
ingar um barnæsku Guðrúnar eru í fyrirliggjandi heimildum en óhætt ætti
að vera að draga einhverjar ályktanir af lýsingum Benedikts Gröndal, í
Dægradvöl (1923), á fjölskyldulífinu á æskuheimilinu, þótt deila megi um
heimildagildi sjálfsævisagna. Reyndar segir Benedikt í upphafi að hann
muni lítið „um æskulíf“ sitt, það sé „að mestu horfinn draumur“,21 en engu
að síður lýsir hann nokkuð ítarlega uppvexti sínum á Álftanesi á árunum
18 Sama heimild, bls. 110.
19 Þegar vinnan við grein þessa var á lokastigi, eftir athugasemdir ritrýna og ritstjóra,
stóðu yfir Hinsegin dagar 2017 í Reykjavík. Í fjölmiðlakynningu frá Samtökunum
’78 af því tilefni var lögð áhersla á að þótt mörgum þætti réttindabarátta hinsegin
fólks langt á veg komin gilti það aðallega um samkynhneigða. Aftur á móti byggju
jaðarhópar á borð við intersex fólk og trans fólk enn við fordóma vegna þekk-
ingarleysis og skorts á umræðu og sýnileika. Sjá vefsíðu Samtakana ’78, sótt 3.
september 2017, https://samtokin78.is/66-frettir/6127-enn-droegumst-vidh-aftur-
ur-i-rettindum-hinsegin-folks-2.
20 Eitt barn misstu þau hjónin fárra vikna gamalt í september 1825.
21 Benedikt Gröndal Sveinbjarnarson, Dægradvöl, Rit III, Gils Guðmundsson sá um
útgáfuna, Hafnarfjörður: Bókabúð Olivers Steins sf., 1983, bls. 21.
soffía auðuR BiRGisdóttiR