Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Qupperneq 48
47
hélt stöðugt menn til þess, eptir að þau fjölguðu“.31 Jón gegndi sjálfur
hlutverki heimiliskennara hjá Sveinbirni og Helgu um nokkurra ára skeið
og eftir að þau féllu frá tók hann að sér yngsta son þeirra, Þorstein (sem þá
var þrettán ára), og kom honum til mennta.32
Þegar Guðrún var nítján ára giftist hún séra Þórði og flutti með
honum vestur í Otradal þar sem hún bjó næstu tíu ár, eða frá 1850 til
1860. Þórður var tíu árum eldri en Guðrún, fæddur 6. febrúar 1821.
Foreldrar hans voru Þorgrímur Guðmundsson (Thorgrímsen), prestur í
Saurbæ á Hvalfjarðarströnd, og Ingibjörg Guðmundsdóttir, systir Helga
Thordersens, dómkirkjuprests og síðar biskups yfir Íslandi. Þórður var
tekinn inn í Bessastaðaskóla árið 1839 (þegar Guðrún er átta ára gömul)
og varð stúdent þaðan árið 1845. Eftir það var hann fyrst með foreldrum
sínum, vann verslunarstörf í Ólafsvík í tvö ár en fékk Otradal árið 1849
og tók prestsvígslu í ágúst sama ár.33 Páll Eggert Ólafsson lýsir Þórði sem
hraustmenni og valmenni og segir hann hafa verið hvort tveggja góðan
smið og skrifara.34 Í Vestfirzkum sögnum Helga Guðmundssonar er grein-
argóð lýsing á Þórði:
Séra Þórði er svo lýst, að hann hafi verið góður meðalmaður að
hæð, herðabreiður og þéttur á velli. Hann hafði jarpt hár og rauð-
jarpt skegg. Hann var kringluleitur, með lítið skarð í höku. Hann
var smiður góður á tré og járn og skytta góð. Hann var listaskrifari,
og hélt hinni fögru og læsilegu rithönd sinni til dauðadags. Hann
hafði mikil og fögur hljóð og tónaði snilldarlega. Séra Þórður var
svo rammur að afli, að hann þótti ekki einhamur, þegar hann beitti
sér. En það var sjaldan, helzt þegar hann reiddist undir áhrifum
víns. Þá stóð ekkert fyrir honum. Hann var ljúfmenni hið mesta og
prúður í allri framkomu sinni, og því var hann mikils virtur af sókn-
arbörnum sínum.35
31 Jón Árnason, „Sveinbjörn Egilsson“, bls. 41.
32 Pálmi Pálsson, „Jón Árnason“, Merkir Íslendingar. Ævisögur og minningargreinar
I, Þorkell Jóhannesson bjó til prentunar, Reykjavík: Bókfellsútgáfan, 1947, bls.
201–219, hér bls. 207.
33 Páll Eggert Ólafsson, Íslenskar æviskrár frá Landnámstímum til ársloka 1940, v.
bindi, Reykjavík: Hið íslenzka bókmenntafélag, 1952, bls. 115; Helgi Guðmunds-
son, Vestfirzkar sagnir II, Reykjavík: Bókaforlagið Fagurskinna, 1945, bls. 45–57.
34 Páll Eggert Ólafsson, Íslenskar æviskrár, bls. 115.
35 Helgi Guðmundsson, Vestfirzkar sagnir II, bls. 42.
HIð „SANNA KYN“ EðA vERULEIKI LÍKAMANS?