Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Side 57
56
að stríða og var Guðrún talin bera þar sök fremur en Þórður. Einnig voru
á sveimi sögur um að Guðrún „væri ekki gerð sem aðrar konur“. Hér að
framan var þess getið að Sighvati Borgfirðingi liggi miður gott orð til
Guðrúnar í Prestaæfum en þar skrifar hann:
Þegar þau hjón höfðu verið saman í Otrardal um 11 ár [rétt er 10
ár], þá hljóp Guðrún frá honum, og fór út í Selárdal, og var þar
nokkur ár, en 1869 flutti hún 38 ára gömul, frá Neðribæ í Selárdal
til Stykkishólms [rétt er að Þingvöllum í Helgafellssókn], og með
henni Ragnhildur frá Neðribæ 29 ára [rétt er 28 ára], Gísladóttir,
bónda í Neðribæ, Árnasonar og var Guðrún síðan í Stykkishólmi til
dauðadags. Þau hjón voru barnlaus, og var hún af mörgum kölluð
Graða Gunna. Fóru ýmsar hraksögur af meðferð hennar og við-
skilnaði við mann sinn, og það eitt með fleiru að með sér flutti hún
flest það er fémætt væri eigu þeirra og hún mátti með sér hafa, en
skildi prest eftir félausann [svo] með öllu, en honum fór við hana að
öllu vel, þó illa hefði hún við hann búið.75
Það er vissulega eftirtektarvert hversu harðorður Sighvatur er í garð
Guðrúnar og að viðurnefnið „Graða Gunna“ sé nefnt í beinu framhaldi
þess að getið er um barnleysi þeirra hjóna. Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók
er sá sem er graður: „ógeltur, kynólmur, lostafullur“76 og er orðið bæði
notað um hesta og menn. Ef á sveimi hefur verið slúður um að prestfrúin
í Otradal væri ‚lostafull‘ vaknar forvitni um hvers vegna og í hvers garð sá
losti hefur beinst.
Það liggur ekki í augum uppi hvernig ber að túlka þessa mynd af
Guðrúnu, sérstaklega þann hluta hennar sem byggður er á sögusögnum og
slúðri. Sú spurning vaknar hvort fræðimaður geti tekið slúður alvarlega.
Helga Kress hefur bent á að slúður „[sé] munnlegt form sagna, óstöð-
ugt, margrætt og síbreytilegt“ og geti „verið lítillækkandi, og jafnvel
meiðandi“.77 Slúður er gildur þáttur í orðræðu Íslendingasagna og mikill
75 Lbs. 2367. 4to. Sighvatur Grímsson Borgfirðingur, Prestaæfir X, bls. 780–781.
76 Ásgeir Blöndal Magnússon, Íslensk orðsifjabók, Reykjavík: Orðabók Háskólans, 1989,
bls. 271.
77 Helga Kress, „Staðlausir stafir. Slúður sem uppspretta frásagnar í Íslendingasög-
um“, Fyrir dyrum fóstru. Greinar um konur og kynferði í íslenskum fornbókmenntum,
Reykjavík: Háskóli Íslands og Rannsóknastofa í kvennafræðum, 1996, bls. 101–134,
hér bls. 102–103.
soffía auðuR BiRGisdóttiR