Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Síða 58
57
áhrifavaldur á atburðarás margra þeirra. Helga skilgreinir það á eftirfar-
andi hátt:
Slúður [...] felur í sér sögu jafnt sem söguburð. Slúðri fylgir jafnan
viss leynd, og stundum njósnir og uppljóstranir. Slúður skortir allar
formlegar reglur sem segja til um hver má tala og hvernig, af hvaða
nákvæmni og áreiðanleika. Það getur verið illmögulegt að rekja það,
leiðrétta, eða vita hver breiðir það út og hvert það berst. Það er
óheft tungumál, andstæða ríkjandi og opinbers tungumáls. Slúður
er orðræða hinna valdalausu, jafnt þeirra sem valdið hafa. Það er
afþreyingarmenning sem hin viðurkennda menning vinnur úr og
tileinkar sér, án þess að gangast við því.78
Helga bendir einnig á að slúður innihaldi oft vísanir í kynlíf, eins og til að
mynda í Lokasennu þar sem konurnar eru „kynósa, en karlarnir argir“.79
Slúður sem þáttur í bókmenntum er vissulega verðugt rannsóknarefni en
hvað með þegar það er þáttur af frásögnum sem tilheyra ekki skáldskap-
artextum heldur varða líf raunverulegs fólks? Íris Ellenberger sagnfræð-
ingur bendir á að slúður sé „vissulega ein tegund af þekkingu“:
Innan þjóðfræðinnar telst slúður til svokallaðra sagna, munnlegs
efnis, sem eiga ýmislegt skylt við ævintýri en tilheyra þó, öfugt
við ævintýrið, raunheimum og tengjast atburðum sem fólk þekkir.
Slíkar sagnir hafa einmitt verið notaðar til að varpa ljósi á samkynja
ástir karla á Íslandi áður en réttindabarátta samkynhneigðra hófst
og það fór að tíðkast að fólk byggði sjálfsmynd sína á þeim sem það
laðaðist að.80
Íris virðist því telja að slúður sé að einhverju leyti nothæft til þekkingaröfl-
unar. Kannski á það ekki síst við þegar um er að ræða málefni sem erfitt
er að ræða opinskátt eins og hinsegin kynverund. Íris vísar í Særúnu Lísu
Birgisdóttur sem fjallar um þetta í meistaraprófsritgerð sinni „Hommar
eða huldufólk?“ þar sem hún rannsakar sagnir af samkynhneigðum karl-
mönnum, sérstaklega á hernámsárunum þegar tækifæri til náinna kynna
78 Sama heimild, bls. 101.
79 Sama heimild, bls. 107.
80 Íris Ellenberger, „Lesbía verður til. Félagið Íslensk-lesbíska og skörun kynhneigðar
og kyngervis í réttindabaráttu á níunda áratug 20. aldar“, Saga 2/2016, bls. 7–52,
hér bls. 18.
HIð „SANNA KYN“ EðA vERULEIKI LÍKAMANS?