Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.05.2017, Qupperneq 76
75
mætti tína til, úr íslenskum heimildum jafnt sem erlendum, og lúta þær
flestar að því að þær konur sem um er rætt þyki ókvenlegar, karlmannlegar
og vargar miklir, en fátt er yfirleitt vitað um konurnar sjálfar og þeirra
upplifun af eigin kyni og kynverund.137
Eins og sést á þeim tveimur ljósmyndum sem fylgja greininni var
Guðrún Sveinbjarnardóttir fremur karlmannleg í útliti. Sú staðreynd að
hún fór frá eiginmanni sínum og lifði á eigin vegum allar götur síðan ber
vitni um að hún hafi verið ákveðin og sjálfstæð kona. Það kann vel að vera
að þetta hafi verið nægur efniviður í slúður og sögusagnir þær sem raktar
hafa verið hér að framan. Það getur líka allt eins verið að Guðrún hafi farið
frá séra Þórði vegna drykkjuskapar hans og hegðunar (var það kannski
hann sem barnaði vinnukonuna?); að hún hafi ekki látið kúga sig og því
„hlaupið“ frá eiginmanni sínum og búi. Þær sagnir sem til eru af séra Þórði
og Guðrúnu eru allar skrifaðar af körlum sem dást að kröftum hans, afsaka
drykkjuskap hans og gefa í skyn að henni hafi verið um að kenna – og
koma slúðri á framfæri. Sveinbjörn faðir Guðrúnar orti eftirfarandi kvæði
um slúður og kallaði „Slettireku“:
Sá, sem að nuddar nefi
í náúngans koppi,
krækir kánkvísri drambtrjónu
í kvarnarsteins auga;
hángir þar, og hángir æ
á hálu miðsnesi,
og augum gýtur eldrauðum
á uglu sína
Hanar og svanir halda hóp,
ernir og tranar leita;
komast ei man í kransinn þann
kvikindið allra sveita.138
137 Sjá t.d. Lillian Faderman, Surpassing the Love of Men, bls. 231–194; Dagný Krist-
jánsdóttir, „Hinsegin raddir“, bls. 458–463; Marina Warner, From the Beast to the
Blonde. On fairy tales and their tellers, London: vintage, 1994; og Louise J. Kaplan,
Female Perversions, sérstaklega kaflarnir „Feminine Stereotypes and the Female
Perversions“, bls. 167–200, og „Masquerades“, bls. 236–283.
138 Sveinbjörn Egilsson, Ljóðmæli Sveinbjarnar Egilssonar, bls. 109.
HIð „SANNA KYN“ EðA vERULEIKI LÍKAMANS?